Út er komin bókin Útisýningarnar á Skólavörðuholti 1967-1972 eftir þær Ingu Ragnarsdóttur myndlistarmann og Kristínu G. Guðnadóttur listfræðing. Bókin er gefin út í tilefni þess að 50 ár eru nú liðin frá fyrstu útisýningunni og jafnframt fagnar Myndlistaskólinn í Reykjavík 70 ára afmæli sínu um þessar mundir, en útisýningarnar voru einmitt haldnar að frumkvæði skólans.

Í bókinni er saga sýninganna rakin og sagt frá forsögu þeirra og umhverfinu sem þær spruttu úr. Útisýningarnar voru fyrstu sýningar á skúlptúr sem haldnar voru í opinberu rými á Íslandi og ollu klárum straumhvörfum í umhverfislist og skúlptúr. Sýningarnar ögruðu sannarlega og kveiktu líflegar umræður. Alls tóku rúmlega 40 listamenn þátt í sýningunum fimm, og sýndu þar um 130 verk. Þarna sýndu hlið við hlið virtir myndhöggvarar af eldri kynslóðinni og ungir og róttækir myndlistarmenn. Sýningarnar voru óheflaðar, framsæknar og anarkískar og einkenndust af samvinnu, bjartsýni, sköpunarkrafti, frelsisvitund og gagnrýninni hugsun.

Bókin er búin fjölmörgum ljósmyndum sem fæstar hafa birst áður. Þær eru ómetanlega heimild um þessa gróskutíma. Mörg verkanna sem þarna voru sýnd hafa glatast, enda sum unnin úr forgengilegum efnum.

Útkomu verksins verður fagnað í Ásmundarsal við Freyjugötu laugardaginn 2. september klukkan 16. Að bókinni standa Myndlistaskólinn í Reykjavík, Minningarsjóður um Ragnar Kjartansson, og Myndhöggvarafélagið í Reykjavík.

Bókin er 192 bls., í stóru broti og öll litprentuð.
Arnar Freyr Guðmundsson hannaði útlit bókarinnar.
Sigurður Svavarsson sá um forlagsritstjórn og framleiðslu.
Ritnefnd verksins var skipuð þeim Áslaugu Thorlacius, Ingu S. Ragnarsdóttur, Kristni E. Hrafnssyni og Kristínu G. Guðnadóttur.