Miðill-efni-merking: Leiðangur að list Önnu Líndal

Miðill-efni-merking: Leiðangur að list Önnu Líndal

„Miðill – Efni – Merking: Leiðangur að list Önnu Líndal “ er heiti fyrirlestrar Ólafar K. Sigurðardóttur safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, sem fer fram í Safnahúsinu við Hverfisgötu, miðvikudaginn 6. desember kl. 12. Ólöf er sýningarstjóri yfirlitssýningarinnar Leiðangur á verkum Önnu Líndal, sem nú stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum.

Anna Líndal á að baki tæplega þrjátíu ára myndlistarferil og er sýningunni á Kjarvalsstöðum ætlað að greina feril hennar, innra samhengi verkanna og vísanir til samfélagslegra viðfangsefna. Ólöf mun fjalla um aðdraganda og markmið sýningarinnar og rekja hvernig Anna hefur notað ólíka miðla til að til að nálgast viðfangsefni sín þar sem sjónræn framsetning, viðfangsefni og merking haldast í hendur. Ólöf er safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og var áður forstöðumaður Hafnarborgar. Hún stýrði um árabil fræðsludeild Listasafns Reykjavíkur þar sem hún hafði m.a. umsjón með málþingum og fyrirlestrum. Ólöf hefur stýrt fjölda sýninga, ritað greinar og haft umsjón með útgáfum um íslenska myndlist.

 

Yfirskrift fyrirlestrarraðarinnar sem Listfræðafélagið stendur fyrir í samvinnu við Safnahúsið nú í haust er Miðill – Efni – Merking. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verð meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.

Leiðsögn með Brynhildi á sunnudaginn

Verulegar
Leiðsögn með Brynhildi
19. nóvember kl. 15:00
Brynhildur Þorgeirsdóttir mun segja frá verkum sínum á sýningunni Verulegar, Brynhildur Þorgeirsdóttir · Guðrún Tryggvadóttir, sem nú stendur í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Brynhildur vinnur skúlptúra og aðal efniviður hennar er steinsteypa og gler sem verður að forvitnilegum verum og fjöllum. Brynhildur lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1979, en fór síðan í framhaldsnám við Gerrit Rietveld Akademíuna í Hollandi, Orrefors glerskólann í Svíþjóð, Listaháskóla í Kaliforníu og Pilchuck Glerskólann í Washington-ríki í Bandaríkjunum og þar hefur hún sinnt kennslu nokkur undanfarin ár. Frá upphafi ferils síns hefur Brynhildur verið í framvarðarsveit íslenskra myndhöggvara og var formaður Myndhöggvarafélagsins 1992-95. Verk hennar hafa verið sýnd víða s.s. í Evrópu, Japan og Bandaríkjunum og hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, sem víða má finna bæði innan- og utandyra á opinberum stöðum, innanlands sem erlendis.
Á sýningunni er sjónum beint að viðamiklum listferli þeirra Brynhildar og Guðrúnar, sem gerðu sig gildandi á vettvangi myndlistar í kjölfar umbrotatíma áttunda áratugs síðustu aldar. Verk þeirra sáust fyrst opinberlega saman á listahátíðinni Gullströndin andar snemma árs 1983 í Reykjavík, hátíð sem í dag er sveipuð goðsagnalegum blæ í hugum margra. Nú tæpum þrjátíu og fimm árum síðar gefst tækifæri til þess að fá innsýn í það sem þær voru að fást við þá og bera það saman við það sem þær eru að fást við í dag. Flest verkanna á sýningunni í Listasafni Árnesinga eru unnin á síðustu þremur árum.
Á sunnudaginn gefst tilvalið tækifæri að kynnast verkum Brynhildar og starfsaðferðum í samtali við listamanninn.
Verið velkomin.

Inga Jónsdóttir safnstjóri
Listasafn Árnesinga
Austurmörk 21, 810 Hveragerði
Sími: 483 1727 / 895 1369
www.listasafnarnesinga.is

Erindi um útisýningarnar í kvöld

Kæru félagar í Listfræðafélaginu,
Í kvöld kl 20 er áhugaverður viðburður um útisýningarnar á Skólavörðuholti í Hafnarhúsinu. Þær vöktu gríðarmikið umtal á sínum tíma og enn er vitnað til þeirra í dag. Fimmtíu ár eru frá fyrstu sýningunni en alls urðu þær fimm talsins og voru haldnar að frumkvæði Myndlistaskólans í Reykjavík. Skólinn fagnar nú sjötíu ára afmæli og af því tilefni er komin út bókin *Útisýningar á Skólavörðuholti 1967-1972*.
Inga S. Ragnarsdóttir, ritstjóri bókarinnar, fjallar um sýningarnar í máli og myndum. Listamenn sem þekkja sögu þeirra, aðdraganda og áhrif, taka þátt í umræðum. Frábær kvöldstund til þess að kynnast þessum mikilvæga hlekk í listasögunni.
listasafnreykjavikur.is/vi%C3%B0burdir/fyrirlestur-og-umraedur-utisyningar-skolavorduholti-1967-1972

Persónusaga – Þjóðarsaga?

Persónusaga – Þjóðarsaga?

Listasafn Reykjavíkur efnir til ráðstefnu á Kjarvalsstöðum þann16. nóvember um einstaklingssöfn í opinberri vörslu undir yfirskriftinni Persónusaga – Þjóðarsaga?

Á ráðstefnunni verður rædd staða einkasafna sem hluta af íslenskri safnaflóru. Tilgangurinn er meðal annars sá að greina hvaða starfsemi er í kringum slík söfn, hvernig þeim er haldið lifandi og hvort að þau styrki eða skekki safneignir einstakra safna og hvaða áhrif tilvist þeirra hefur á listasöguna.

Ráðstefnan er haldin í samstarfi við Rannsóknarsetur í safnafræðum og flytja fulltrúar frá mörgum af helstu listasöfnum landsins erindi. Flutt verða erindi um tilvist slíkra safna utan höfuðborgarsvæðisins og um það hvernig einstaklingar takast á við það hlutverk að eignast arfleið listamanns sem getur talist þjóðarafur. Aðalfyrirlestur flytur Onita Wass safnstjóri Millesgården í Stokkhólmi sem er einstaklingssafn myndhöggvarans Carl Milles (1875-1955) eins lærimeistara Ásmundar Sveinssonar.

Skráning HÉR
DAGSKRÁ:

Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri – Listasafn Reykjavíkur
Opnunarávarp

Onita Wass safnstjóri – Millesgården, Stokkhólmi
Millesgården an artist home from the 1900´s into the 20th century

Sigurður Trausti Traustason deildarstjóri safneignar og rannsókna – Listasafn Reykjavíkur
Einstaklingssöfn innan Listasafns Reykjavíkur í fortíð, nútíð og framtíð

HÁDEGISHLÉ

Sigurjón Baldur Hafsteinsson prófessor – Rannsóknarsetur í safnafræðum
Safnafræði um einkasöfn og hið opinbera

Sigríður Melrós Ólafsdóttir safnstjóri – Listasafn Einars Jónssonar
Hnitbjörg falinn fjársjóður?

Kristín Dagmar Jóhannesdóttir safnstjóri – Gerðarsafn – Listasafn Kópavogs

Listasafn Íslands

KAFFIHLÉ

Halla Hauksdóttir stjórnarformaður – Listaverkasafn Valtýs Péturssonar
Að sitja uppi með fjársjóð

Hanna Dís Whitehead – Listasafn Svavars Guðnasonar

UMRÆÐUR, RÁÐSTEFNUSLIT OG LÉTTAR VEITINGAR

MIÐILL – EFNI – MERKING: MOMENTUM 9 – ALIENATION

MIÐILL – EFNI – MERKING: MOMENTUM 9 – ALIENATION

„Momentum 9 – Alienation“ er heiti fyrirlestrar Jóns B. K. Ransu sem fer fram í Safnahúsinu við Hverfisgötu, miðvikudaginn 1. nóvember kl. 12. Ransu var einn af fimm sýningarstjórum Momentum tvíæringsins sem lauk nú í október í Moss í Noregi. Momentum er einhver stærsta sýning á samtímamyndlist á Norðurlöndunum.

Ransu mun fara yfir sýninguna í máli og myndum og fjalla um þá listamenn sem tóku þátt ásamt því að fjalla um vinnuferli sýningarstjóranna í aðdraganda sýningarinnar.

Ransu er myndlistarmaður og deildarstjóri við Listmálaradeild Myndlistaskólans í Reykjavík, en hefur áður kennt við Listaháskóla Íslands. Hann hefur tekið að sér sýningarstjórn fyrir söfn og gallerí, eins og Listasafn Íslands, Listasafn Reykajavíkur og Nýlistasafnið. Hann var myndlistargagnrýnandi Morgunblaðsins um árabil og hefur gefið út bækur og skrifað um myndlist í sýningarskrár og fræðitímarit á Íslandi og erlendis.

Yfirskrift fyrirlestrarraðarinnar sem Listfræðafélagið stendur fyrir í samvinnu við Safnahúsið nú í haust er Miðill – Efni – Merking. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verð meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.