MIÐILL – EFNI – MERKING: Kynusli / Genderfuck í Gallerí 78

MIÐILL – EFNI – MERKING: Kynusli / Genderfuck í Gallerí 78

Miðvikudaginn 4. október kl. 12:00 mun Magnús Gestsson flytja annan fyrirlestur haustsins í fyrirlestraröðinni Miðill – efni- merking á vegum Listfræðafélagsins í samstarfi við Safnahúsið. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verið meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.

Titill fyrirlestrarins er Kynusli / Genderfuck í Gallerí 78 og mun Magnús leggja útaf verkum Öldu Villiljóss sem nú sýnir í Gallerí 78.

Yfirskrift fyrirlestrarins vísar í titil sýningarinnar og mikilvægi gallerísins fyrir sýnileika hinseigin myndlistarfólks. Þó þema sýningarinnar gefi til kynna óreiðu og flóknar hugmyndir utan alfaraleiðar miðla ljósmyndir Öldu hlýju, djúpum skilningi á heimi hinsegin fólks og næmu auga háns fyrir hinu óvænta og fagra í fari viðfangsefna sinna sem miðlað er af öryggi og innsæi til þeirra sem kunna að fyllast óöryggi gagnvart heimi sem mörgum er torskilinn. Fyrirlestrinum er ætlað að varpa ljósi á fjölbreytileika lífsins um leið og gerð er grein fyrir menningarlegu gildi verkanna og samhengi ásamt þeim fræðihugmyndum sem búa að baki þeirra.

Magnús Gestsson er stundakennari í listfræði við Háskóla Íslands og lauk doktorsprófi í list- og gallerífræðum frá University of Leicester árið 2009. Auk þess að sinna kennslu hefur hún unnið við sýningastjórn og haldið fyrirlestra um myndlist. Magnús er nú formanneskja Listfræðafélags Íslands.

Boðskort á Útgáfuhóf. Útisýningarnar á Skólavörðuholti 1967-1972

Út er komin bókin Útisýningarnar á Skólavörðuholti 1967-1972 eftir þær Ingu Ragnarsdóttur myndlistarmann og Kristínu G. Guðnadóttur listfræðing. Bókin er gefin út í tilefni þess að 50 ár eru nú liðin frá fyrstu útisýningunni og jafnframt fagnar Myndlistaskólinn í Reykjavík 70 ára afmæli sínu um þessar mundir, en útisýningarnar voru einmitt haldnar að frumkvæði skólans.

Í bókinni er saga sýninganna rakin og sagt frá forsögu þeirra og umhverfinu sem þær spruttu úr. Útisýningarnar voru fyrstu sýningar á skúlptúr sem haldnar voru í opinberu rými á Íslandi og ollu klárum straumhvörfum í umhverfislist og skúlptúr. Sýningarnar ögruðu sannarlega og kveiktu líflegar umræður. Alls tóku rúmlega 40 listamenn þátt í sýningunum fimm, og sýndu þar um 130 verk. Þarna sýndu hlið við hlið virtir myndhöggvarar af eldri kynslóðinni og ungir og róttækir myndlistarmenn. Sýningarnar voru óheflaðar, framsæknar og anarkískar og einkenndust af samvinnu, bjartsýni, sköpunarkrafti, frelsisvitund og gagnrýninni hugsun.

Bókin er búin fjölmörgum ljósmyndum sem fæstar hafa birst áður. Þær eru ómetanlega heimild um þessa gróskutíma. Mörg verkanna sem þarna voru sýnd hafa glatast, enda sum unnin úr forgengilegum efnum.

Útkomu verksins verður fagnað í Ásmundarsal við Freyjugötu laugardaginn 2. september klukkan 16. Að bókinni standa Myndlistaskólinn í Reykjavík, Minningarsjóður um Ragnar Kjartansson, og Myndhöggvarafélagið í Reykjavík.

Bókin er 192 bls., í stóru broti og öll litprentuð.
Arnar Freyr Guðmundsson hannaði útlit bókarinnar.
Sigurður Svavarsson sá um forlagsritstjórn og framleiðslu.
Ritnefnd verksins var skipuð þeim Áslaugu Thorlacius, Ingu S. Ragnarsdóttur, Kristni E. Hrafnssyni og Kristínu G. Guðnadóttur.

MIÐILL – EFNI – MERKING — Ný fyrirlestraröð Listfræðafélags Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu

MIÐILL – EFNI – MERKING — Ný fyrirlestraröð Listfræðafélags Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu

Líkt  og undanfarin ár mun Listfræðafélagið standa  fyrir almennum fyrirlestrum um myndlist í samvinnu við Safnahúsið. Markmiðið er að kynna rannsóknir félagsmanna á straumum og stefnum í íslenskri myndlist.

Yfirskrift fyrirlestraraðarinnar fyrir áramót er Miðill – Efni – Merking. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verð meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.

 

Hlynur Helgason, lektor í listrfræði við Háskóla Íslands, flytur fyrsta fyrirlesturinn miðvikudaginn 6. september. Fyrirlesturinn kemur til með að bera titilinn „Vélráð Ragnars Kjartanssonar“ og þar leggur Hlynur út frá verkum á sýningu Ragnars í Hafnarhúsinu.

 

Ritgerðasamkeppni til minningar Dr. Selmu Jónsdóttur listfræðing – framlengdur skilafrestur

Ritgerðasamkeppni til minningar Dr. Selmu Jónsdóttur listfræðing – framlengdur skilafrestur

Dr. Selma Jónsdóttir (1917-1987) listfræðingur, var fyrsti forstöðumaður Listasafns Íslands og frumkvöðull í rannsóknum á íslenskri miðaldalist. Hún var jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að ljúka háskólaprófi í listasögu, útskrifaðist með B.A. próf og síðar M.A. próf frá Columbia háskóla í New York árið 1949 og varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands árið 1960, fyrst íslenskra kvenna. Í tilefni af því að 22. ágúst í ár eru 100 ár liðin frá fæðingu Selmu, stendur Listfræðafélag Íslands fyrir ritgerðasamkeppni um íslenska myndlist meðal framhaldsskólanema landsins. Með þessu vill félagið minnast brautryðjendastarfs Selmu á sviði rannsókna á íslenskri miðaldalist en einnig að minna á mikilvægi listrannsókna á íslenskri samtímalist og hvetja framhaldsskólanemendur til dáða á því sviði.

Samkeppnin er ætluð nemendum í fjölbrauta-, mennta-, list- og tækniskólum sem útskrifa nemendur til stúdentsprófs. Ritgerðirnar skulu fjalla um íslenska myndlist en að öðru leyti hafa þátttakendur frjálst val um efni þeirra.

Veitt verða verðlaun fyrir þrjár bestu ritgerðirnar; 1. verðlaun 25.000kr auk bókarverðlauna, 2. verðlaun 15.000kr auk bókarverðlauna og 3. verðlaun: 10.000kr auk bókarverðlauna.

Ritgerðirnar skulu vera 2000 orð auk titilsíðu, heimildaskrár og tilvísana neðanmáls. Myndir skulu fylgja. Merkja skal ritgerðirnar með dulnefni en upplýsingar um nafn höfundar, kennitölu, símanúmer og skóla fylgja með í lokuðu umslagi.

Ritgerðir skal senda til Listasafns Íslands, Fríkirkjuvegi 7, 101 Reykjavík fyrir 15. nóvember 2017, merktar RITGERÐASAMKEPPNI. – SKILAFRESTUR HEFUR VERIÐ FRAMLENGDUR TIL OG MEÐ 17. NÓVEMBER.

Fyrirspurnir má senda á netfangið: listfraedi@listfraedi.

Sumarsamsæti Listfræðafélagsins 7. júní kl. 5 e.h.

Sumarsamsæti Listfræðafélagsins 7. júní kl. 5 e.h.

Sumarsamsæti Listfræðafélagsins,  verður næstkomandi miðvikudag, 7. júní, á Jakobsen Lofti í Austurstræti kl. 5 e.h. Gleðistund stendur yfir frá 5 til 7 þannig að fólk getur setið og rætt saman yfir léttum veitingum. Nú þegar líður að sumar er gengið í garð er tilvalið að hittast og ræða þau verkefni sem framundan eru í sumar og haust.

Minnum á fyrirlestur Halldórs Björns Runólfssonar í dag miðvikudaginn 3. maí kl. 12 í Safnahúsinu

Minnum á fyrirlestur Halldórs Björns Runólfssonar í dag miðvikudaginn 3. maí kl. 12 í Safnahúsinu

Hvað má læra af átökunum milli FÍM og SÚM haustið 1969? er heiti fyrirlestrar sem Halldór Björn Runólfsson sem  flytur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 3. maí frá 12 til 13.  Fyrirlesturinn er sá fjórði og síðasti í fyrirlestraröð sem Listfræðafélagið stendur fyrir nú í vor í samvinnu við Safnahúsið. Yfirskrift fyrirsestraraðarinnar er Átakalínur í íslenskri myndlist. Markmiðið er að kynna rannsóknir félagsmanna á lykiltímabilum í íslenskri list á liðinni öld þar sem átök á milli ólíkra hugsjóna og stefna voru áberandi í umræðunni.