Félagsfundur að loknum aðalfundi SÍM-húsinu við Hafnarstræti laugardaginn 29. mars frá 16 til 17. Margrét Elísabet Ólafsdóttir er frummælandi og flytur félagsmönnum erindi undir titlinum: Hvernig á að segja sögu vídeólistar á Íslandi ?
Í erindinu tekur hún fyrir spurningar um listfræðileg málefni, tengsl söfnunar, skráningar, söguritunar og fræða eins og sjá má í lýsingu sem fylgir hér á eftir.
Vonast er til þess að í kjölfarið verði líflegar umræður um málið, aðferðir og möguleika listfræðinnar til að segja sögu myndlistar á Íslandi.
Útdráttur erindis: Hvernig á að segja sögu vídeólistar á Íslandi ?

Það er auðvelt fyrir rannsakanda að lýsa því yfir að hann ætli sér að segja sögu íslenskrar vídeólistar. Það er erfiðara að ákveða hvernig nálgast á viðfangsefnið, ekki síst þegar flestir viðmælendur eru sammála um að á Íslandi hafi aldrei verið til vídeólist. Hvað merkir það ? Í þessu erindi ætla ég að gera tilraun til að svara þeirri spurningu um leið og ég fjalla um aðferðafræði rannsókna minna á íslenskri vídeólist og hvernig hún hefur mótast af aðstæðum. Ég mun segja frá upphafi verkefnisins, ástæðum þess að það var lagt til hliðar og síðan tekið upp aftur. Þá mun ég gera grein fyrir sýningunni “Íslensk vídeólist frá 1975-1990” sem sett var upp í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsinu síðastliðið haust og ræða hvernig forsendur rannsóknarinnar réðu áherslunum við uppsetningu sýningarinnar.