Spegill tímans, fyrirlestur Aðalheiðar Valgeirsdóttur og Aldísar Arnardóttur sem fram fer í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 7. september frá 12 til 13. Fyrirlesturinn er fyrsti fyrirlesturinn í nýrri fyrirlestraröð Listfræðafélagins í Safnahúsinu. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.

Eitt af viðfangsefnum listfræðinnar er að skoða myndlistina útfrá mismunandi sjónarhornum og setja í samhengi við orðræðu og tíðaranda hvers tíma. Í fyrirlestrinum Spegill tímans, fjalla listfræðingarnir og sýningarstjórarnir Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir um það samtal sem verður til þegar verkum listamanna tveggja kynslóða er teflt saman, líkt og gert er á sýningunni Tímalög sem nú stendur yfir í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Þar eru sýnd verk eftir listamennina Karl Kvaran (1924-1989) og Erlu Þórarinsdóttur (1955). Þær Aðalheiður og Aldís munu segja frá tilurð sýningarinnar, vinnuferlinu og þeirri aðferðafræði sem liggur að baki sýningarverkefninu.

Aðalheiður Valgeirsdóttir er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk BA prófi í listfræði með menningarfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 2011 og MA prófi í sömu grein árið 2014.

Aldís Arnardóttir er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA prófi í listfræði, með menningarfræði sem aukagrein árið 2012.