Tíminn í landslaginu, fyrirlestur Jóns Proppé, verður fluttur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 2. nóvember frá 12 til 13.  Í fyrirlestrinum ræðir Jón tilurð og forsendur sýningar sinnar  í Listasafni Árnesinga árið 2013 þar sem verk Arngunnar Ýrar Gylfadóttur voru sett í samhengi verka Ásgríms Jónssonar. Fyrirlesturinn er þriðji fyrirlesturinn í fyrirlestraröð Listfræðafélagins í samvinnu við Safnahúsið nú í haust. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.
_dsc5733Ásgrímur Jónsson (1876–1958) var frumkvöðull í íslenskri landslagslist við upphaf tuttugustu aldar, meistari ljóss og lita sem ferðaðist um sveitir landsins með málarastriga og trönur. Landslagshefðin hvarf að miklu leyti á áttunda áratugnum þegar nýlistin var að ryðja sér til rúms en smátt og smátt hafa sumir yngri listamenn fetað sig aftur á þær slóðir. Einn af þeim er Arngunnur Ýr (1962) sem hefur leitað á marga þá staði sem Ásgrímur málaði áður, en sameinar þá líka stundum við ímyndað landslag eða fjallalandslag frá Kaliforníu þar sem hún býr þegar hún er ekki að ganga á fjöll á Íslandi eða mála á vinnustofu sinni í hrauninu fyrir ofan Hafnarfjörð.

Í fyrirlestri sínum fyrir Listfræðafélagið mun Jón segja frá sýningunni, velta fyrir sér eðli og þróun landslagsmálverksins og fjalla um aðferðarfræði sýninga þar sem verk listamanna af ólíkum kynslóðum eru sýnd saman.


Jón Proppé,  listheimspekingur er sjálfstætt starfandi fræðimaður og sýningarstjóri.