ÁTAKALÍNUR – Eyrún Óskarsdóttir — En þetta var geggjað fólk

ÁTAKALÍNUR – Eyrún Óskarsdóttir — En þetta var geggjað fólk

„En þetta var geggjað fólk“ – SÚM hópurinn og samfélagið á sjöunda áratug síðustu aldar er heiti fyrirlestrar Eyrúnar Óskarsdóttur sem  fluttur verðurí Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 5. apríl frá 12 til 13.  Fyrirlesturinn er sá þriðji í fyrirlestraröð sem Listfræðafélagið stendur fyrir nú í vor í samvinnu við Safnahúsið. Yfirskrift fyrirsestraraðarinnar er Átakalínur í íslenskri myndlist. Markmiðið er að kynna rannsóknir félagsmanna á lykiltímabilum í íslenskri list á liðinni öld þar sem átök á milli ólíkra hugsjóna og stefna voru áberandi í umræðunni.

Árið 1965 hófst nýr kafli í islenskri myndlistarsögu þegar fjórir ungir menn opnuðu samsýningu í Ásmundarsal og Mokka. Þetta voru þeir Hreinn Friðfinnsson, Sigurjón Jóhannsson, Jón Gunnar Árnason og Haukur Dór Sturluson. Sýninguna nefndu þeir SÚM. Haldnar voru samsýningar í nafni SÚM á komandi árum hérlendis auk þess sem félagar í hópnum tóku þátt í sýningum erlendis. Félagsskapurinn var frekar óformlegur og meginmarkmiðið að standa að sýningum félagsmanna og fá erlenda listamenn til að sýna hér á landi og greiða götu íslenskra listamanna á erlendum vettvangi. Fleiri listamenn bættust í hópinn og aðrir gengu úr honum, sumir oftar en einu sinni.
SÚMmarar fóru ekki troðnar slóðir í listsköpun sinni og uppskáru frekar neikvæðar móttökur almennings og gagnrýnenda og listamanna innan Félags íslenskra myndlistarmanna (FÍM). Árin sem SÚM var og hét voru því heldur stormasöm og þegar nokkrir úr hópnum fluttust erlendis upp úr 1972-3  dró máttinn úr starfseminni og félagið lagði að endingu upp laupana um tíu árum eftir að það var stofnað.

Fyrirlesturinn fjallar um sambúð SÚM við hið afturhaldssama íslenska samfélag sjöunda og áttunda áratugarins og meðal annars skyggnst í gamlar fundargerðir þeirra frá starfsárunum.