Menning í Múlakoti. Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar

Menning í Múlakoti. Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar

Ásta Friðriksdóttir listfræðingur flytur fyrirlesturinn Menning í Múlakoti: Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar, í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 7. mars milli kl. 12 – 13.

Bærinn Múlakot í Fljótshlíð var mikil menningarmiðstöð á fyrri hluta 20. aldar og bærinn tengist íslenskri listasögu en þangað lögðu margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar leið sína og dvöldu um lengri eða skemmri tíma. Hjónin Túbal Magnússon og Guðbjörg Þorleifsdóttir ráku gistiheimili og veitingastað í Múlakoti og síðar tók sonur þeirra, myndlistarmaðurinn Ólafur Túbal við starfseminni. Meðal þeirra listamanna sem dvöldu í Múlakoti má nefna Ásgrím Jónsson, Jón Engilberts og Gunnlaug Scheving.

Ásta Friðriksdóttir útskrifaðist sem listfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2016 en hluta námsins var hún skiptinemi við University of Sussex í Brighton í Englandi. Lokaritgerð hennar fjallar um gistiheimilið Múlakot í Fljótshlíð.
Ásta hefur starfað á Listasafni Íslands við skráningu í gagnagrunn Sarps og við fræðsludeild safnsins frá árinu 2015, auk þess að taka að sér leiðsagnir innlendra og erlendra gesta safnins.

Ljósm. Árni Sæberg

Ávísun um uppdrátta- og málaralistina

Ávísun um uppdrátta- og málaralistina

Gunnar Harðarson, prófessor við Sagfnræði og heimspekideild Háskóla Íslands, ræðir um útgáfu sína á riti Helga Sigurðssonar, Ávísun um uppdrátta- og málaralistina, miðvikudaginn 7. febrúar kl. 12 á vegum Listfræðafélag Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

 Ávísun um uppdrátta- og málaralistina er eina íslenska ritið frá fyrri öldum sem fjallar um myndlist á fræðilegan máta. Ritið var hugsað sem kennslubók í málaralist og teikningu sem höfundur skrifaði meðan hann var við nám í Kaupmannahöfn árið 1846. Megin viðfangsefnið er fjarvíddarteikning en einnig er fjallað um listmálun og gildi og gagnsemi myndlistar. Ritið er merkileg heimild um íslenska myndlistarsögu og kom út hjá Crymogeu á síðasta ári. Það hefur ekki áður verið gefið út í heild sinni.

Gunnar Harðarson lauk doktorsprófi við Université Paris I – Panthéon-Sorbonne árið 1984 og er nú prófessor við Sagnfræði og heimspekideild Háskóla Íslands. Hann hefur gefið út bækur og sinnt rannsóknum og kennslu um árabil m.a. við Listaháskóla Íslands.

Miðill-efni-merking: Leiðangur að list Önnu Líndal

Miðill-efni-merking: Leiðangur að list Önnu Líndal

„Miðill – Efni – Merking: Leiðangur að list Önnu Líndal “ er heiti fyrirlestrar Ólafar K. Sigurðardóttur safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, sem fer fram í Safnahúsinu við Hverfisgötu, miðvikudaginn 6. desember kl. 12. Ólöf er sýningarstjóri yfirlitssýningarinnar Leiðangur á verkum Önnu Líndal, sem nú stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum.

Anna Líndal á að baki tæplega þrjátíu ára myndlistarferil og er sýningunni á Kjarvalsstöðum ætlað að greina feril hennar, innra samhengi verkanna og vísanir til samfélagslegra viðfangsefna. Ólöf mun fjalla um aðdraganda og markmið sýningarinnar og rekja hvernig Anna hefur notað ólíka miðla til að til að nálgast viðfangsefni sín þar sem sjónræn framsetning, viðfangsefni og merking haldast í hendur. Ólöf er safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og var áður forstöðumaður Hafnarborgar. Hún stýrði um árabil fræðsludeild Listasafns Reykjavíkur þar sem hún hafði m.a. umsjón með málþingum og fyrirlestrum. Ólöf hefur stýrt fjölda sýninga, ritað greinar og haft umsjón með útgáfum um íslenska myndlist.

 

Yfirskrift fyrirlestrarraðarinnar sem Listfræðafélagið stendur fyrir í samvinnu við Safnahúsið nú í haust er Miðill – Efni – Merking. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verð meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.

MIÐILL – EFNI – MERKING: MOMENTUM 9 – ALIENATION

MIÐILL – EFNI – MERKING: MOMENTUM 9 – ALIENATION

„Momentum 9 – Alienation“ er heiti fyrirlestrar Jóns B. K. Ransu sem fer fram í Safnahúsinu við Hverfisgötu, miðvikudaginn 1. nóvember kl. 12. Ransu var einn af fimm sýningarstjórum Momentum tvíæringsins sem lauk nú í október í Moss í Noregi. Momentum er einhver stærsta sýning á samtímamyndlist á Norðurlöndunum.

Ransu mun fara yfir sýninguna í máli og myndum og fjalla um þá listamenn sem tóku þátt ásamt því að fjalla um vinnuferli sýningarstjóranna í aðdraganda sýningarinnar.

Ransu er myndlistarmaður og deildarstjóri við Listmálaradeild Myndlistaskólans í Reykjavík, en hefur áður kennt við Listaháskóla Íslands. Hann hefur tekið að sér sýningarstjórn fyrir söfn og gallerí, eins og Listasafn Íslands, Listasafn Reykajavíkur og Nýlistasafnið. Hann var myndlistargagnrýnandi Morgunblaðsins um árabil og hefur gefið út bækur og skrifað um myndlist í sýningarskrár og fræðitímarit á Íslandi og erlendis.

Yfirskrift fyrirlestrarraðarinnar sem Listfræðafélagið stendur fyrir í samvinnu við Safnahúsið nú í haust er Miðill – Efni – Merking. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verð meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.

MIÐILL – EFNI – MERKING: Kynusli / Genderfuck í Gallerí 78

MIÐILL – EFNI – MERKING: Kynusli / Genderfuck í Gallerí 78

Miðvikudaginn 4. október kl. 12:00 mun Magnús Gestsson flytja annan fyrirlestur haustsins í fyrirlestraröðinni Miðill – efni- merking á vegum Listfræðafélagsins í samstarfi við Safnahúsið. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verið meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.

Titill fyrirlestrarins er Kynusli / Genderfuck í Gallerí 78 og mun Magnús leggja útaf verkum Öldu Villiljóss sem nú sýnir í Gallerí 78.

Yfirskrift fyrirlestrarins vísar í titil sýningarinnar og mikilvægi gallerísins fyrir sýnileika hinseigin myndlistarfólks. Þó þema sýningarinnar gefi til kynna óreiðu og flóknar hugmyndir utan alfaraleiðar miðla ljósmyndir Öldu hlýju, djúpum skilningi á heimi hinsegin fólks og næmu auga háns fyrir hinu óvænta og fagra í fari viðfangsefna sinna sem miðlað er af öryggi og innsæi til þeirra sem kunna að fyllast óöryggi gagnvart heimi sem mörgum er torskilinn. Fyrirlestrinum er ætlað að varpa ljósi á fjölbreytileika lífsins um leið og gerð er grein fyrir menningarlegu gildi verkanna og samhengi ásamt þeim fræðihugmyndum sem búa að baki þeirra.

Magnús Gestsson er stundakennari í listfræði við Háskóla Íslands og lauk doktorsprófi í list- og gallerífræðum frá University of Leicester árið 2009. Auk þess að sinna kennslu hefur hún unnið við sýningastjórn og haldið fyrirlestra um myndlist. Magnús er nú formanneskja Listfræðafélags Íslands.