LISTVINIR — Æsa Sigurjónsdóttir um Sigríði Zoëga

LISTVINIR — Æsa Sigurjónsdóttir um Sigríði Zoëga

Í ár eru liðin 100 ár frá því að Listvinafélag Íslands var stofnað í Reykjavík. Af því tilefni efnir Listfræðafélag Íslands til hádegisfyrirlestra um Listvinafélagið og efni tengd því í lestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu, vorið 2016. Fyrirlesarar eru félagsmenn Listfræðafélags Íslands og eru allir velkomnir.

Annar fyrirlesturinn í röðinni verður miðvikudaginn 9. mars, frá 12–13, í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Þar flytur Æsa Sigurjónsdóttir dósent í listfræði við Háskóla Íslands erindi sem ber titilinn „Sigríður Zoëga ljósmyndari í Reykjavík“:

SigrÍður Zoega í afgreislu ljósmyndastofu sinnar í febrúar 1915.

SigrÍður Zoega í afgreislu ljósmyndastofu sinnar í febrúar 1915.

Sigríður Zoëga (1889 – 1968) ljósmyndari var einn af stofnendum Listvinafélagsins árið 1916. Sigríður var í sýningarnefnd frá 1922 og átti þátt í að skipuleggja fyrstu myndlistarsýningar félagsins. Þá voru almennir fundir félagsins haldnir á ljósmyndastofu hennar Sigríður Zoëga & Co., sem hún rak ásamt Steinunni Thorsteinson, ljósmyndara. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að námsárum Sigríðar, einkum dvöl hennar hjá hinum nú heimsþekkta ljósmyndara August Sander, og því menningarumhverfi sem hún kynntist í Köln í Þýskalandi. Þá verður rætt hvernig ljósmyndir Sigríðar endurspegla nútímalega sjálfsmynd hennar og hvernig megi flétta feril hennar inn í sögu evrópskra kvenljósmyndara, sem talsvert hefur verið í deiglunni undanfarið.

Æsa Sigurjónsdóttir er listfræðingur og dósent í listfræði við Háskóla Íslands. Hún skrifaði Sigríður Zoega ljósmyndari í Reykjavík. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 2000.

_______________________

Safnahúsið tengist beint sögu Lisvinafélagsins, en bókasafn félagsins var um árabil í Safnahúsinu í umsjón Matthíasar Þórðarsonar, þjóðminjavarðar og ritara félagsins. Listvinafélagið lognaðis út af árið 1932 en á starfstíma sínum var það öflugur félagsskapur sem átti mikilvægan þátt í að auka þekkingi og áhuga á myndlist hér á landi og gera myndlist aðgengilega fyrir almenningi. Það er því vel við hæfi að minnast 100 ára afmælis félagsins með fyrirlestraröð þar sem fjallað er um íslenska myndlist, í húsi sem hýsir sýninguna Sjónarhorn, sem veitir innsýn í íslenskan myndheim fyrr og nú.

_______________________

Listfræðafélag Íslands, sem stendur á bak við fyrirlestrana, var formlega stofnað í maí árið 2009 af hópi listfræðinga, sýningarstjóra og annarra fagaðila á sviði listfræða á Íslandi. Félagsmenn eru um 60. Félagið leysti af hólmi eldra félag, Félag listfræðinga, sem var stofnað árið 1984 en hætti starfsemi upp úr aldamótum. Frá upphafi hefur markmið Listfræðafélags Íslands verið að efla samvinnu þeirra sem starfa á sviði listfræða, að stuðla að listfræðirannsóknum og miðlun þeirra til almennings og að efla kennslu á sviði listfræði. Félagið skipar fulltrúa í opinberar nefndir og ráð eins og Myndlistarráð og á einnig fulltrúa í stjórn Sambands norrænna listfræðinga. Frá upphafi hefur félagið staðið fyrir reglulegum fundum félagsmanna en það hefur einnig skipulagt opinber málþing, í samstarfi við listastofnanir á höfuðborgarsvæðinu, þar sem rannsóknir á sviði listfræða hafa verið kynntar almenningi. Vorið 2015 stóð félagið að viðamikilli ráðstefnu listfræðinga á Norðurlöndum, NORDIK 2015, sem þá var haldin í fyrsta sinn í Reykjavík.