Félagsfundur — Dagný Heiðdal kynnir orðasafn um myndlist

Kæru félagar!
Haustið nálgast og ný stjórn Listfræðafélagsins hefur lagt drög að starfi vetrarins.
Okkur þykir mikilvægt að skapa vettvang til að hittast og ræða mál tengd listfræðum og munum því halda reglulega fundi félagsmanna fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði kl. 17–19 á 2. hæð á Kaffi Sólon í Bankastræti. Þar geta félagsmenn kynnt verkefni sem þeir eru að fást við í stuttu erindi, eða einskonar umræðuvaka. Dagný Heiðdal ríður á vaðið með því að kynna Orðasafn um myndlist miðvikudaginn 5. september 2012.
Lögð verður áhersla á að bæta heimasíðu félagsins listfraedi.is og koma þar á fót umræðuvettvangi um myndlist og auka möguleika félagsmanna til að kynna sig og rannsóknir sínar.
Í lok október er svo stefnt að því að halda opna ráðstefnu og verður sagt nánar frá henni síðar.
Samþykkt var á aðalfundi að árgjald fyrir 2012 yrði 3000 kr. Félagar með aukaaðild greiða helming af þeirri upphæð og félagsmenn sjötugir eða eldri eru gjaldfrjálsir. Greiðsluseðlar verða sendir í heimabanka félagsmanna og hvetur stjórnin félagsmenn til að greiða þá við fyrsta tækifæri til að staðfesta félagsaðild og stuðla að öflugu starfi félagsins.
Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við stjórnina ef þeir vilja leggja fram umræðuvaka á fundum, leggja til efni á heimasíðuna eða koma að starfi félagsins á annan hátt. Við komum vonandi til með að ná góðri umræðu um þessi málefni og fleiri eftir að umræðu um erindi Dagnýjar lýkur á miðvikudaginn.