Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans

Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans

Gunnar J. Árnason listheimspekingur flytur fyrirlesturinn „Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans“ á vegum Listfræðafélags Íslands miðvikudaginn 4. apríl kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Gunnar er höfundur bókarinnar Ásýnd heimsins, um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans. Í henni er fjallað hvernig listir og fagurfræði hafa haft áhrif á margar af þeim heimspekilegu hugmyndum sem gegndu stóru hlutverki í að skapa hugmyndaheim nútímans frá átjándu öld til loka tuttugustu aldar. Í erindi sínu mun Gunnar ræða um listfræði, listasögu og listgagnrýni, í ljósi þessarar sögu og velta fyrir sér þeirri spurningu hver staða listfræði er í hugmyndaheimi nútímans og hvaða erindi hún á við samtímann. Hvað ætlar hún sér með listina, hvað ætlar hún sér með okkur?

Gunnar J. Árnason hefur skrifað um myndlist um árabil og verið stundakennari við Listaháskóla Íslands. Hann lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og School of Visual Arts í New York áður en hann sneri sér að heimspeki við Háskóla Íslands og listheimspeki og fagurfræði við Cambridge háskóla á Englandi.

Ásýnd heimsins, um list og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans, kom út á vegum Listaháskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar árið 2017.

MIÐILL – EFNI – MERKING: MOMENTUM 9 – ALIENATION

MIÐILL – EFNI – MERKING: MOMENTUM 9 – ALIENATION

„Momentum 9 – Alienation“ er heiti fyrirlestrar Jóns B. K. Ransu sem fer fram í Safnahúsinu við Hverfisgötu, miðvikudaginn 1. nóvember kl. 12. Ransu var einn af fimm sýningarstjórum Momentum tvíæringsins sem lauk nú í október í Moss í Noregi. Momentum er einhver stærsta sýning á samtímamyndlist á Norðurlöndunum.

Ransu mun fara yfir sýninguna í máli og myndum og fjalla um þá listamenn sem tóku þátt ásamt því að fjalla um vinnuferli sýningarstjóranna í aðdraganda sýningarinnar.

Ransu er myndlistarmaður og deildarstjóri við Listmálaradeild Myndlistaskólans í Reykjavík, en hefur áður kennt við Listaháskóla Íslands. Hann hefur tekið að sér sýningarstjórn fyrir söfn og gallerí, eins og Listasafn Íslands, Listasafn Reykajavíkur og Nýlistasafnið. Hann var myndlistargagnrýnandi Morgunblaðsins um árabil og hefur gefið út bækur og skrifað um myndlist í sýningarskrár og fræðitímarit á Íslandi og erlendis.

Yfirskrift fyrirlestrarraðarinnar sem Listfræðafélagið stendur fyrir í samvinnu við Safnahúsið nú í haust er Miðill – Efni – Merking. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verð meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.

MIÐILL – EFNI – MERKING: Kynusli / Genderfuck í Gallerí 78

MIÐILL – EFNI – MERKING: Kynusli / Genderfuck í Gallerí 78

Miðvikudaginn 4. október kl. 12:00 mun Magnús Gestsson flytja annan fyrirlestur haustsins í fyrirlestraröðinni Miðill – efni- merking á vegum Listfræðafélagsins í samstarfi við Safnahúsið. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verið meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.

Titill fyrirlestrarins er Kynusli / Genderfuck í Gallerí 78 og mun Magnús leggja útaf verkum Öldu Villiljóss sem nú sýnir í Gallerí 78.

Yfirskrift fyrirlestrarins vísar í titil sýningarinnar og mikilvægi gallerísins fyrir sýnileika hinseigin myndlistarfólks. Þó þema sýningarinnar gefi til kynna óreiðu og flóknar hugmyndir utan alfaraleiðar miðla ljósmyndir Öldu hlýju, djúpum skilningi á heimi hinsegin fólks og næmu auga háns fyrir hinu óvænta og fagra í fari viðfangsefna sinna sem miðlað er af öryggi og innsæi til þeirra sem kunna að fyllast óöryggi gagnvart heimi sem mörgum er torskilinn. Fyrirlestrinum er ætlað að varpa ljósi á fjölbreytileika lífsins um leið og gerð er grein fyrir menningarlegu gildi verkanna og samhengi ásamt þeim fræðihugmyndum sem búa að baki þeirra.

Magnús Gestsson er stundakennari í listfræði við Háskóla Íslands og lauk doktorsprófi í list- og gallerífræðum frá University of Leicester árið 2009. Auk þess að sinna kennslu hefur hún unnið við sýningastjórn og haldið fyrirlestra um myndlist. Magnús er nú formanneskja Listfræðafélags Íslands.

MIÐILL – EFNI – MERKING — Ný fyrirlestraröð Listfræðafélags Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu

MIÐILL – EFNI – MERKING — Ný fyrirlestraröð Listfræðafélags Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu

Líkt  og undanfarin ár mun Listfræðafélagið standa  fyrir almennum fyrirlestrum um myndlist í samvinnu við Safnahúsið. Markmiðið er að kynna rannsóknir félagsmanna á straumum og stefnum í íslenskri myndlist.

Yfirskrift fyrirlestraraðarinnar fyrir áramót er Miðill – Efni – Merking. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verð meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.

 

Hlynur Helgason, lektor í listrfræði við Háskóla Íslands, flytur fyrsta fyrirlesturinn miðvikudaginn 6. september. Fyrirlesturinn kemur til með að bera titilinn „Vélráð Ragnars Kjartanssonar“ og þar leggur Hlynur út frá verkum á sýningu Ragnars í Hafnarhúsinu.

 

Ritgerðasamkeppni til minningar Dr. Selmu Jónsdóttur listfræðing – framlengdur skilafrestur

Ritgerðasamkeppni til minningar Dr. Selmu Jónsdóttur listfræðing – framlengdur skilafrestur

Dr. Selma Jónsdóttir (1917-1987) listfræðingur, var fyrsti forstöðumaður Listasafns Íslands og frumkvöðull í rannsóknum á íslenskri miðaldalist. Hún var jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að ljúka háskólaprófi í listasögu, útskrifaðist með B.A. próf og síðar M.A. próf frá Columbia háskóla í New York árið 1949 og varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands árið 1960, fyrst íslenskra kvenna. Í tilefni af því að 22. ágúst í ár eru 100 ár liðin frá fæðingu Selmu, stendur Listfræðafélag Íslands fyrir ritgerðasamkeppni um íslenska myndlist meðal framhaldsskólanema landsins. Með þessu vill félagið minnast brautryðjendastarfs Selmu á sviði rannsókna á íslenskri miðaldalist en einnig að minna á mikilvægi listrannsókna á íslenskri samtímalist og hvetja framhaldsskólanemendur til dáða á því sviði.

Samkeppnin er ætluð nemendum í fjölbrauta-, mennta-, list- og tækniskólum sem útskrifa nemendur til stúdentsprófs. Ritgerðirnar skulu fjalla um íslenska myndlist en að öðru leyti hafa þátttakendur frjálst val um efni þeirra.

Veitt verða verðlaun fyrir þrjár bestu ritgerðirnar; 1. verðlaun 25.000kr auk bókarverðlauna, 2. verðlaun 15.000kr auk bókarverðlauna og 3. verðlaun: 10.000kr auk bókarverðlauna.

Ritgerðirnar skulu vera 2000 orð auk titilsíðu, heimildaskrár og tilvísana neðanmáls. Myndir skulu fylgja. Merkja skal ritgerðirnar með dulnefni en upplýsingar um nafn höfundar, kennitölu, símanúmer og skóla fylgja með í lokuðu umslagi.

Ritgerðir skal senda til Listasafns Íslands, Fríkirkjuvegi 7, 101 Reykjavík fyrir 15. nóvember 2017, merktar RITGERÐASAMKEPPNI. – SKILAFRESTUR HEFUR VERIÐ FRAMLENGDUR TIL OG MEÐ 17. NÓVEMBER.

Fyrirspurnir má senda á netfangið: listfraedi@listfraedi.