Gunnar J. Árnason listheimspekingur flytur fyrirlesturinn „Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans“ á vegum Listfræðafélags Íslands miðvikudaginn 4. apríl kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Gunnar er höfundur bókarinnar Ásýnd heimsins, um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans. Í henni er fjallað hvernig listir og fagurfræði hafa haft áhrif á margar af þeim heimspekilegu hugmyndum sem gegndu stóru hlutverki í að skapa hugmyndaheim nútímans frá átjándu öld til loka tuttugustu aldar. Í erindi sínu mun Gunnar ræða um listfræði, listasögu og listgagnrýni, í ljósi þessarar sögu og velta fyrir sér þeirri spurningu hver staða listfræði er í hugmyndaheimi nútímans og hvaða erindi hún á við samtímann. Hvað ætlar hún sér með listina, hvað ætlar hún sér með okkur?

Gunnar J. Árnason hefur skrifað um myndlist um árabil og verið stundakennari við Listaháskóla Íslands. Hann lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og School of Visual Arts í New York áður en hann sneri sér að heimspeki við Háskóla Íslands og listheimspeki og fagurfræði við Cambridge háskóla á Englandi.

Ásýnd heimsins, um list og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans, kom út á vegum Listaháskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar árið 2017.