Gunnar Harðarson, prófessor við Sagfnræði og heimspekideild Háskóla Íslands, ræðir um útgáfu sína á riti Helga Sigurðssonar, Ávísun um uppdrátta- og málaralistina, miðvikudaginn 7. febrúar kl. 12 á vegum Listfræðafélag Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

 Ávísun um uppdrátta- og málaralistina er eina íslenska ritið frá fyrri öldum sem fjallar um myndlist á fræðilegan máta. Ritið var hugsað sem kennslubók í málaralist og teikningu sem höfundur skrifaði meðan hann var við nám í Kaupmannahöfn árið 1846. Megin viðfangsefnið er fjarvíddarteikning en einnig er fjallað um listmálun og gildi og gagnsemi myndlistar. Ritið er merkileg heimild um íslenska myndlistarsögu og kom út hjá Crymogeu á síðasta ári. Það hefur ekki áður verið gefið út í heild sinni.

Gunnar Harðarson lauk doktorsprófi við Université Paris I – Panthéon-Sorbonne árið 1984 og er nú prófessor við Sagnfræði og heimspekideild Háskóla Íslands. Hann hefur gefið út bækur og sinnt rannsóknum og kennslu um árabil m.a. við Listaháskóla Íslands.