Harpa Björnsdóttir flytur fyrirlesturinn „Bróderað landslag“ á vegum Listfræðafélags Íslands miðvikudaginn 2. maí kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Í erindi sínu mun Harpa fjalla um sérkennileg myndverk frá árunum 1914-1956, þar sem himinn og vatn er málað en landslag saumað út með listsaumi. Verkin kallast á við þá landslagsdýrkun sem kom fram hjá íslenskum listmálurum á sama tíma og tengist sjálfstæðisbaráttu og styrkingu á sjálfsmynd þjóðar sem rís á þessum árum til fullveldis og síðar til fulls sjálfstæðis. Sýning á nokkrum slíkum verkum opnar í Safnasafninu um miðjan maí.

Harpa Björnsdóttir stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Háskóla Íslands, Leiðsögumannaskóla Íslands og var gestanemandi við listaskóla í Kaupmannahöfn og Dublin. Hún hefur starfað sem myndlistarmaður frá árinu 1983, var verkefnastjóri Menningarnætur í Reykjavík 1997 og 1998 og framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík 1999-2000. Harpa hefur einnig verið sýningarstjóri fjölmargra sýninga.

Harpa hefur unnið að rannsókn og útgáfu bókar um Karl Einarsson Dunganon í samstarfi við Helgu Hjörvar, bókin mun koma út samhliða yfirlitssýningu á verkum hans í Listasafni Íslands í haust. Undanfarin ár hefur Harpa unnið að rannsókn á lífi og myndlist Sölva Helgasonar (1820-1895) og stefnir að útgáfu bókar á 200 ára ártíð hans árið 2020.