Greinasafn fyrir flokkinn: Félagsfundir

Félagsfundur — Halldór Björn Runólfsson um Documenta 13

Þriðji félagsfundur félagsins í vetur verður þann 7. nóvember kl. 17 á efri hæðinni á Kaffi Sólon í Bankastræti.

Umræðuefni undarins verður þrettánda Documenta sýningin sem var haldin í Kassel í Þýskalandi í sumar. Halldór Björn Runólfsson safnstjóri Listasafns Íslands verður með framsögu og kynnir sýn sína af sýningunni. Í kjölfar innleggs Halldórs Bjarnar er þess að vænta að fjörugar umræður skapist um upplifun manna af sýningunni og forsendur hennar.

Nú er búið að halda tvo félagsfundi í vetur og hafa í hvort skiptið mætt á milli 10 til 20 manns. Þetta heur reynst áhugaverður vettvangur samskipta og verður það vonandi áfram.

Stefnt er að því að halda áfram með félagsfundina í vetur. Þeir verða fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði ef því verður komið við.

Næsti viðburður á dagskrá félagsins verður opið málþing á vegum félagsins um miðlun og móttöku umræðu um samtímalist á Íslandi. Málþingið verður haldið laugardaginn 24. nóvembrer frá 13 til 15. Það kemur til með að fara fram í fjölnotasal Hafnarhússins í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur. Þar koma Harpa Þórsdóttir, Hlynur Helgason, og Markús Þór Andrésson til með að flytja krítísk erindi um álit sína á þessum málum hér á landi. Við komum til með að kynna málþingið betur á félagsfundinum og ræða forsendur þess.

Félagsfundur — Hlynur Helgason kynnir doktorsritgerð sína

Til stóð að Kristín Dagmar væri með upphafsinnlegg um Sjónmenningaverðlaun og mögulega aðkomu félagsins að slíkum viðburðum. Því miður þurfum við að fresta þeirri umræðu vegna forfalla Kristínar.

Í staðinn ætlum við að fylgja ágætri tillögu Margrétar Elísabetar um að undirritaður, Hlynur Helgason, flytji erindi sem stjórnin hafði ætlað að setja á dagskrá síðar.

Erindi hans kemur til með að fjalla um rannsóknir hans á vettvangi heimspeki listmiðlunar út frá doktorsritgerð sem hann varði sumarið 2011 og er að ganga frá til útgáfu eins og stendur. Ritgerðin, sem í útgáfu ber titilinn, “The Beyond Within: “Post-Cinematic” Possibilities of Play and Action”,er í verufræðileg greining á möguleikum listar til áhrifa með vísan í valin dæmi úr myndlist og kvikmyndun.

Það er von okkar að í kjölfar innleggs Hlyns skapist ágætar umræður um málefni samtímalistar og aðferðafræði við að greina áhrif hennar og virkni.

Félagsfundur — Dagný Heiðdal kynnir orðasafn um myndlist

Kæru félagar!
Haustið nálgast og ný stjórn Listfræðafélagsins hefur lagt drög að starfi vetrarins.
Okkur þykir mikilvægt að skapa vettvang til að hittast og ræða mál tengd listfræðum og munum því halda reglulega fundi félagsmanna fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði kl. 17–19 á 2. hæð á Kaffi Sólon í Bankastræti. Þar geta félagsmenn kynnt verkefni sem þeir eru að fást við í stuttu erindi, eða einskonar umræðuvaka. Dagný Heiðdal ríður á vaðið með því að kynna Orðasafn um myndlist miðvikudaginn 5. september 2012.
Lögð verður áhersla á að bæta heimasíðu félagsins listfraedi.is og koma þar á fót umræðuvettvangi um myndlist og auka möguleika félagsmanna til að kynna sig og rannsóknir sínar.
Í lok október er svo stefnt að því að halda opna ráðstefnu og verður sagt nánar frá henni síðar.
Samþykkt var á aðalfundi að árgjald fyrir 2012 yrði 3000 kr. Félagar með aukaaðild greiða helming af þeirri upphæð og félagsmenn sjötugir eða eldri eru gjaldfrjálsir. Greiðsluseðlar verða sendir í heimabanka félagsmanna og hvetur stjórnin félagsmenn til að greiða þá við fyrsta tækifæri til að staðfesta félagsaðild og stuðla að öflugu starfi félagsins.
Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við stjórnina ef þeir vilja leggja fram umræðuvaka á fundum, leggja til efni á heimasíðuna eða koma að starfi félagsins á annan hátt. Við komum vonandi til með að ná góðri umræðu um þessi málefni og fleiri eftir að umræðu um erindi Dagnýjar lýkur á miðvikudaginn.