Félagsfundur/samsæti Listfræðafélagsins 18. janúar kl. 5 e.h.

Félagsfundur/samsæti Listfræðafélagsins 18. janúar kl. 5 e.h.

Fyrsti félagsfundur og samsæti Listfræðafélagsins á nýju ári verður næstkomandi miðvikudag, 18. janúar á Jakobsen Lofti í Austurstræti kl. 5 e.h. Þetta er tilvalið tækifæri fyrir félaga að hittast og ræða í góðum félagsskap þá möguleika og áskoranir sem blasa við faginu á nýju ári.

Á dagskrá verður inntaka nýs félaga og önnur mál. Að því loknu verður haldið samsæti þar sem stefnt er að léttu spjalli um þau málefni sem helst brenna á félagsmönnum.

Pöbb-kviss LIstfræðafélagsins fimmtudaginn 15. desember

Pöbb-kviss LIstfræðafélagsins fimmtudaginn 15. desember

Nú er loksins komið að hinu árlega pöbb-kvissi Listfræðafélagsins sem allir hafa beðið eftir. Það verður haldið á efri hæðinni á Sólon í Bankastræti fimmtudaginn 15. desember kl. 8 um kvöldið.

Sigurvegarar síðasta árs, Jón Proppé og Hlynur Helgason, fá það hlutverk að búa til spurningarnar og er því að vænta spennandi og fjölbreyttrar keppni.

Við hvetjum sem flesta til að taka sér hlé frá jólastandinu, setjast niður með góðum félögum, fá sér drykk á sérstöku tilboði frá Sólon og rifja upp fáfengilegar upplýsingar listasögunnar. Ykkur er einnig velkomið að taka með ykkur góða gesti sem gaman kynnu að hafa af léttum spurningaleik!

Við sjáum vonandi sem flesta á fimmtudagskvöld!

Útgáfuhóf

Ágætu félagar,
Út er kominn sýningarbæklingur vegna sýningarinnar Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar (undir sýningarstjórn undirritaðrar) sem haldin var á Kjarvalsstöðum 12. sept.-29. nóv. 2015. Við Harpa Björnsdóttir önnuðumst útgáfuna og fengum til hennar styrki frá Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar og frá Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Óformlegt útgáfuhóf verður haldið á Marina Hotel í Slippnum á þriðjudaginn 13. desember kl 16, og verður boðið upp á léttar veitingar. Ég verð að vísu fjarri góðu gamni þar sem ég er stödd erlendis í vetur en Harpa tekur á móti gestum og afhendir eintök af bókinni. Allir velkomnir!
Bestu kveðjur,
Anna Jóa

STEFNUMÓT — Eiríkur Þorláksson — „-30 / +60“ – 7. desember

STEFNUMÓT — Eiríkur Þorláksson — „-30 / +60“ – 7. desember

„-30 / +60“, fyrirlestur Eiríks Þorlákssonar, verður fluttur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 7. desember frá 12 til 13.  Fyrirlesturinn er fjórði fyrirlesturinn og sá síðasti í fyrirlestraröð Listfræðafélagins í samvinnu við Safnahúsið nú í haust. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.

Haustið 1998 fyllti sýningin „-30 / 60+“ alla sali og ganga Kjarvalsstaða, en í henni voru valin saman í einn stað verk listafólks af tveimur ólíkum kynslóðum; annars vegar bar fyrir augu gesta verk ungrar kynslóðar listafólks – undir þrítugu – sem var að koma fram á myndlistarvettvangi af fullum krafti, og hins vegar verk vel þekktra listamanna – yfir sextugt – sem höfðu öðlast viðurkenndan sess í myndlistarlífinu eftir öflugt og markvisst starf um áratuga skeið og voru enn í fullu fjöri.

Með því að leiða saman þetta listafólk – sitt hvoru megin við hefðbundna valdakynslóð hvers tíma – var varpað fram spurningum mögulegar andstæður, tengsl, rof eða hvort þráður listsköpunarinnar reyndist heill og óskiptur milli þessara kynslóða.
Orðspor sýningarinnar „-30 / 60+“ hefur lifað í minningunni, og í fyrirlestrinum mun Eiríkur Þorláksson, annar sýningarstjóranna, rifja hana upp og lýsa henni nánar, sem og þeim viðbrögðum sem hún vakti.

 

 

 

Dada — fyrirlestur á sunnudag

Dada — fyrirlestur á sunnudag

Fyrirlestur Benedikts Hjartarsonar: DADA aldarafmæli — Sunnudag, 13. nóvember 2016 kl. 13 í  Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi.
Benedikt Hjartarson bókmenntafræðingur fjallar um tengsl framúrstefnu og fyrri heimsstyrjaldar.
Í ár eru hundrað ár síðan dada hreyfingin kom fram á sjónarsviðið. Að því tilefni heldur Benedikt Hjartarson erindi um dadaismann og aðra framúrstefnu þess tíma og tengsl við fyrri heimsstyrjöldina. Erindið er hluti af samstarfsverkefni Listasafns Reykjavíkur og Íslenska dansflokksins sem sýnir í nóvember verkið *Da Da Dans*.
Dada var heiti hreyfingar í listum og bókmenntum sem fól í sér mótvægi gegn viðteknum viðhorfum. Hún kom fram í Sviss árið 1916 og breiddist út víða. Fylgismenn vildu taka listina niður af stalli og láta hana endurspegla samtímann og daglegt líf, með áherslu á tilviljanir og uppákomur. Háð og skrumskæling einkenndu hreyfinguna sem var í eðli sínu uppreisn gegn þjóðfélagsháttum sem leiddu til fyrri heimsstyrjaldar. Í Listasafni Reykjavíkur standa um þessar mundir yfir sýningar og dagskrá sem fjalla um stríð og frið og er fyrirlesturinn hluti af þeirri dagskrá.
Benedikt Hjartarson er prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi frá hugvísindasviði háskólans í Groningen árið 2012 með doktorsritgerð um yfirlýsingar evrópskra framúrstefnuhreyfinga í upphafi 20. aldar. Benedikt hefur gefið út fjölda greina og bóka um evrópska framúrstefnu á síðastliðnum árum, m.a. ritið *Yfirlýsingar. Evrópska framúrstefnan* (2001), sem hefur að geyma safn yfirlýsinga frá tíma evrópsku framúrstefnunnar.
Íslenski dansflokkurinn frumsýnir dansverkið* Da Da Dans* í Borgarleikhúsinu, kvöldið fyrir fyrirlesturinn, laugardag 12. nóvember. Verkið er eftir Grímuverðlaunahafana Ingu Huld Hákonardóttur og Rósu Ómarsdóttur við frumsamda tónlist Sveinbjörns Thorarensens. Í *Da Da Dans* munu danshöfundarnir skoða mismunandi leiðir dadaismans og velta fyrir sér hvort þær eigi enn við í dag.
Aðgangur á fyrirlestur Benedikts er ókeypis.

STEFNUMÓT — Jón Proppé — Tíminn í landslaginu

STEFNUMÓT — Jón Proppé — Tíminn í landslaginu

Tíminn í landslaginu, fyrirlestur Jóns Proppé, verður fluttur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 2. nóvember frá 12 til 13.  Í fyrirlestrinum ræðir Jón tilurð og forsendur sýningar sinnar  í Listasafni Árnesinga árið 2013 þar sem verk Arngunnar Ýrar Gylfadóttur voru sett í samhengi verka Ásgríms Jónssonar. Fyrirlesturinn er þriðji fyrirlesturinn í fyrirlestraröð Listfræðafélagins í samvinnu við Safnahúsið nú í haust. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.
_dsc5733Ásgrímur Jónsson (1876–1958) var frumkvöðull í íslenskri landslagslist við upphaf tuttugustu aldar, meistari ljóss og lita sem ferðaðist um sveitir landsins með málarastriga og trönur. Landslagshefðin hvarf að miklu leyti á áttunda áratugnum þegar nýlistin var að ryðja sér til rúms en smátt og smátt hafa sumir yngri listamenn fetað sig aftur á þær slóðir. Einn af þeim er Arngunnur Ýr (1962) sem hefur leitað á marga þá staði sem Ásgrímur málaði áður, en sameinar þá líka stundum við ímyndað landslag eða fjallalandslag frá Kaliforníu þar sem hún býr þegar hún er ekki að ganga á fjöll á Íslandi eða mála á vinnustofu sinni í hrauninu fyrir ofan Hafnarfjörð.

Í fyrirlestri sínum fyrir Listfræðafélagið mun Jón segja frá sýningunni, velta fyrir sér eðli og þróun landslagsmálverksins og fjalla um aðferðarfræði sýninga þar sem verk listamanna af ólíkum kynslóðum eru sýnd saman.


Jón Proppé,  listheimspekingur er sjálfstætt starfandi fræðimaður og sýningarstjóri.