Útisýningar á Skólavörðuholti 1967-1972

Út er komin bókin Útisýningarnar á Skólavörðuholti 1967-1972 eftir þær Ingu Ragnarsdóttur myndlistarmann og Kristínu G. Guðnadóttur listfræðing. Bókin er gefin út í tilefni þess að 50 ár eru nú liðin frá fyrstu útisýningunni og jafnframt fagnar Myndlistaskólinn í Reykjavík 70 ára afmæli sínu um þessar mundir, en útisýningarnar voru einmitt haldnar að frumkvæði skólans.
Í bókinni er saga sýninganna rakin og sagt frá forsögu þeirra og umhverfinu sem þær spruttu úr. Útisýningarnar voru fyrstu sýningar á skúlptúr sem haldnar voru í opinberu rými á Íslandi og ollu klárum straumhvörfum í umhverfislist og skúlptúr. Sýningarnar ögruðu sannarlega og kveiktu líflegar umræður. Alls tóku rúmlega 40 listamenn þátt í sýningunum fimm, og sýndu þar um 130 verk. Þarna sýndu hlið við hlið virtir myndhöggvarar af eldri kynslóðinni og ungir og róttækir myndlistarmenn. Sýningarnar voru óheflaðar, framsæknar og anarkískar og einkenndust af samvinnu, bjartsýni, sköpunarkrafti, frelsisvitund og gagnrýninni hugsun.
Bókin er búin fjölmörgum ljósmyndum sem fæstar hafa birst áður. Þær eru ómetanlega heimild um þessa gróskutíma. Mörg verkanna sem þarna voru sýnd hafa glatast, enda sum unnin úr forgengilegum efnum.
Að bókinni standa Myndlistaskólinn í Reykjavík, Minningarsjóður um Ragnar Kjartansson, og Myndhöggvarafélagið í Reykjavík.
Bókin er 192 bls., í stóru broti og öll litprentuð. Arnar Freyr Guðmundsson hannaði útlit bókarinnar. Sigurður Svavarsson sá um forlagsritstjórn og framleiðslu. Ritnefnd verksins var skipuð þeim Áslaugu Thorlacius, Ingu S. Ragnarsdóttur, Kristni E. Hrafnssyni og Kristínu G. Guðnadóttur.

Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans

Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans

Gunnar J. Árnason listheimspekingur flytur fyrirlesturinn „Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans“ á vegum Listfræðafélags Íslands miðvikudaginn 4. apríl kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Gunnar er höfundur bókarinnar Ásýnd heimsins, um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans. Í henni er fjallað hvernig listir og fagurfræði hafa haft áhrif á margar af þeim heimspekilegu hugmyndum sem gegndu stóru hlutverki í að skapa hugmyndaheim nútímans frá átjándu öld til loka tuttugustu aldar. Í erindi sínu mun Gunnar ræða um listfræði, listasögu og listgagnrýni, í ljósi þessarar sögu og velta fyrir sér þeirri spurningu hver staða listfræði er í hugmyndaheimi nútímans og hvaða erindi hún á við samtímann. Hvað ætlar hún sér með listina, hvað ætlar hún sér með okkur?

Gunnar J. Árnason hefur skrifað um myndlist um árabil og verið stundakennari við Listaháskóla Íslands. Hann lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og School of Visual Arts í New York áður en hann sneri sér að heimspeki við Háskóla Íslands og listheimspeki og fagurfræði við Cambridge háskóla á Englandi.

Ásýnd heimsins, um list og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans, kom út á vegum Listaháskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar árið 2017.

Menning í Múlakoti. Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar

Menning í Múlakoti. Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar

Ásta Friðriksdóttir listfræðingur flytur fyrirlesturinn Menning í Múlakoti: Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar, í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 7. mars milli kl. 12 – 13.

Bærinn Múlakot í Fljótshlíð var mikil menningarmiðstöð á fyrri hluta 20. aldar og bærinn tengist íslenskri listasögu en þangað lögðu margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar leið sína og dvöldu um lengri eða skemmri tíma. Hjónin Túbal Magnússon og Guðbjörg Þorleifsdóttir ráku gistiheimili og veitingastað í Múlakoti og síðar tók sonur þeirra, myndlistarmaðurinn Ólafur Túbal við starfseminni. Meðal þeirra listamanna sem dvöldu í Múlakoti má nefna Ásgrím Jónsson, Jón Engilberts og Gunnlaug Scheving.

Ásta Friðriksdóttir útskrifaðist sem listfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2016 en hluta námsins var hún skiptinemi við University of Sussex í Brighton í Englandi. Lokaritgerð hennar fjallar um gistiheimilið Múlakot í Fljótshlíð.
Ásta hefur starfað á Listasafni Íslands við skráningu í gagnagrunn Sarps og við fræðsludeild safnsins frá árinu 2015, auk þess að taka að sér leiðsagnir innlendra og erlendra gesta safnins.

Ljósm. Árni Sæberg

Ávísun um uppdrátta- og málaralistina

Ávísun um uppdrátta- og málaralistina

Gunnar Harðarson, prófessor við Sagfnræði og heimspekideild Háskóla Íslands, ræðir um útgáfu sína á riti Helga Sigurðssonar, Ávísun um uppdrátta- og málaralistina, miðvikudaginn 7. febrúar kl. 12 á vegum Listfræðafélag Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

 Ávísun um uppdrátta- og málaralistina er eina íslenska ritið frá fyrri öldum sem fjallar um myndlist á fræðilegan máta. Ritið var hugsað sem kennslubók í málaralist og teikningu sem höfundur skrifaði meðan hann var við nám í Kaupmannahöfn árið 1846. Megin viðfangsefnið er fjarvíddarteikning en einnig er fjallað um listmálun og gildi og gagnsemi myndlistar. Ritið er merkileg heimild um íslenska myndlistarsögu og kom út hjá Crymogeu á síðasta ári. Það hefur ekki áður verið gefið út í heild sinni.

Gunnar Harðarson lauk doktorsprófi við Université Paris I – Panthéon-Sorbonne árið 1984 og er nú prófessor við Sagnfræði og heimspekideild Háskóla Íslands. Hann hefur gefið út bækur og sinnt rannsóknum og kennslu um árabil m.a. við Listaháskóla Íslands.

Ásýnd heimsins — útgáfuhóf

Ásýnd heimsins — útgáfuhóf

Útgáfuhóf 27. apríl kl. 16.00–17.30
Myndlistardeild Listaháskóla Íslands
Laugarnesvegi 91

Út er komin bókin Ásýnd heimsins, Um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans á vegum Listaháskóla Íslands í samstarfi við Háskólaútgáfuna. Höfundurinn, Gunnar J. Árnason heimspekingur, rekur þróun hugmynda innan fagurfræði og heimspeki listar frá upphafi nýaldar til samtímans. Í bókinni er að finna aðgengilegan inngang að flestum þeim hugsuðum og hugmyndakerfum sem hafa haft mótandi áhrif á stöðu og hlutverk lista í samtímanum. Fengist er við spurningar um hlutverk, gildi, eðli og áhrif listarinnar og þær settar í samhengi við hugmyndasögu þess tímabils sem bókin fjallar um. Bókin er fyrsta yfirlitsverk af þessu tagi á íslensku, aðgengileg og áhugaverð öllum almenningi.

Gunnar J. Árnason hefur skrifað um myndlist um árabil sem sjálfstætt starfandi gagnrýnandi og fræðimaður, auk þess að kenna heimspeki lista og fagurfræði í Listaháskóla Íslands. Hann nam heimspeki við Háskóla Íslands og Cambridge háskóla á Englandi.

Til að fagna útgáfunni verður útgáfuhóf í myndlistardeild Listaháskóla Íslands að Laugarnesvegi 91 þann 27. Apríl kl. 16.

Allir velkomnir.

asyndheimsins.is