Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, fjalla um sýninguna Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? í hádegisfyrirlestri á vegum Listfræðafélags Íslands, miðvikudaginn 26. september kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Sýningin Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? er viðmikil myndlistarsýning sem staðið hefur yfir í tveimur safnahúsum Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsinu og á Kjarvalsstöðum, frá því í júní. Á sýningunni, sem lýkur þann 30. september nk., eru fjölmörg verk eftir frumkvöðla íslenskrar myndlistar, auk nýrri verka eftir starfandi listamenn samtímans. Sýningin er áhugaverð út frá listfræðilegu sjónarhorni, því hún segir sögu íslenskrar myndlistar frá upphafi 20. aldar til upphafs 21. aldar með því að beina sjónum að verkum sem endurspegla tengsl Íslendinga við víðerni landsins. Sýningunni er ætlað að varpa fram spurningum um breytilegt verðmætamat gagnvart náttúrunni, en hún veitir einnig færi á að ræða hlutverk myndlistarinnar í samfélaginu og hvernig hún endurspeglar tíðarandann hverju sinni. Á 100 ára afmæli Fullveldis Íslands veitir hún kærkomið tækifæri til að skoða rauðan þráð í sögu íslenskrar myndlistar, sem eru tengsl myndlistarmanna við íslenska náttúru og landslag. Sýningin er hluti af afmælishátíð fullveldisins og hluti af Listahátíð í Reykjavík 2018.

Listfræðafélagi Íslands er sönn ánægja að taka á móti Ólöfu K. Sigurðardóttur, sýningarstjóra sýningarinnar, og Markúsi Þór Andréssyni, sem ætla að segja frá sýningunni og tilurð hennar í hádegisfyrirlestri á vegum félagsins. Eftir umfjöllun Ólafar og Markúsar Þórs verður opnað fyrir umræður.

Haustið 2018 eru hádgisfyrirlestrar Listfræðafélags Íslands helgaðir 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Fyrirlestarnir eru opnir öllum. Aðgangur er ókeypis.