Ásta Friðriksdóttir listfræðingur flytur fyrirlesturinn Menning í Múlakoti: Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar, í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 7. mars milli kl. 12 – 13.

Bærinn Múlakot í Fljótshlíð var mikil menningarmiðstöð á fyrri hluta 20. aldar og bærinn tengist íslenskri listasögu en þangað lögðu margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar leið sína og dvöldu um lengri eða skemmri tíma. Hjónin Túbal Magnússon og Guðbjörg Þorleifsdóttir ráku gistiheimili og veitingastað í Múlakoti og síðar tók sonur þeirra, myndlistarmaðurinn Ólafur Túbal við starfseminni. Meðal þeirra listamanna sem dvöldu í Múlakoti má nefna Ásgrím Jónsson, Jón Engilberts og Gunnlaug Scheving.

Ásta Friðriksdóttir útskrifaðist sem listfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2016 en hluta námsins var hún skiptinemi við University of Sussex í Brighton í Englandi. Lokaritgerð hennar fjallar um gistiheimilið Múlakot í Fljótshlíð.
Ásta hefur starfað á Listasafni Íslands við skráningu í gagnagrunn Sarps og við fræðsludeild safnsins frá árinu 2015, auk þess að taka að sér leiðsagnir innlendra og erlendra gesta safnins.

Ljósm. Árni Sæberg