Miðvikudaginn 4. október kl. 12:00 mun Magnús Gestsson flytja annan fyrirlestur haustsins í fyrirlestraröðinni Miðill – efni- merking á vegum Listfræðafélagsins í samstarfi við Safnahúsið. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verið meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.

Titill fyrirlestrarins er Kynusli / Genderfuck í Gallerí 78 og mun Magnús leggja útaf verkum Öldu Villiljóss sem nú sýnir í Gallerí 78.

Yfirskrift fyrirlestrarins vísar í titil sýningarinnar og mikilvægi gallerísins fyrir sýnileika hinseigin myndlistarfólks. Þó þema sýningarinnar gefi til kynna óreiðu og flóknar hugmyndir utan alfaraleiðar miðla ljósmyndir Öldu hlýju, djúpum skilningi á heimi hinsegin fólks og næmu auga háns fyrir hinu óvænta og fagra í fari viðfangsefna sinna sem miðlað er af öryggi og innsæi til þeirra sem kunna að fyllast óöryggi gagnvart heimi sem mörgum er torskilinn. Fyrirlestrinum er ætlað að varpa ljósi á fjölbreytileika lífsins um leið og gerð er grein fyrir menningarlegu gildi verkanna og samhengi ásamt þeim fræðihugmyndum sem búa að baki þeirra.

Magnús Gestsson er stundakennari í listfræði við Háskóla Íslands og lauk doktorsprófi í list- og gallerífræðum frá University of Leicester árið 2009. Auk þess að sinna kennslu hefur hún unnið við sýningastjórn og haldið fyrirlestra um myndlist. Magnús er nú formanneskja Listfræðafélags Íslands.