ÁTAKALÍNUR – Jón Proppé — Blátt strik: Átökin um abstraktið

ÁTAKALÍNUR – Jón Proppé — Blátt strik: Átökin um abstraktið

Blátt strik: Átökin um abstraktið, fyrirlestur Jóns Proppé, verður fluttur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 1. febrúar frá 12 til 13.  Fyrirlesturinn er sá fyrsti í nýrri í fyrirlestraröð Listfræðafélagins í samvinnu við Safnahúsið vorið 2017. Yfirskrift raðarinnar er Átakalínur í íslenskri myndlist. Markmiðið er að kynna rannsóknir félagsmanna á lykiltímabilum í íslenskri list á liðinni öld þar sem átök á milli ólíkra hugsjóna og stefna voru áberandi í umræðunni.

Fimmti áratugurinn var vettvangur mikilla átaka á myndlistarsviðinu á Íslandi. Þar laust saman ólíkum hugmyndum um listir, menningu og samfélag, og það er langt í frá einfalt að greina þessa þræði í sundur til að átta sig á því hvað gerðist á þessum lykiltíma í íslenskri listasögu. Jón Proppé mun reyna að losa nokkra enda úr flækjunni og byggir á vinnu sinni við skrif í Listasögu Íslands og rannsóknum á skrifum um myndlist á Íslandi sem hann hefur stundað undanfarin ár og áður fjallað um í fyrirlestrum og á prenti.

ÁTAKALÍNUR í íslenskri myndlist — Kallað eftir erindum

ÁTAKALÍNUR í íslenskri myndlist — Kallað eftir erindum

Nú á vormánuðum stendur Listfræðafélag Íslands fyrir nýrri röð fyrirlestra í Safnahúsinu við Hverfisgötu í hádeginu fyrsta miðvikudag hvers mánaðar. Yfirskrift raðarinnar verður Átakalínur í íslenskri myndlist. Markmiðið er að kynna rannsóknir félagsmanna á lykiltímabilum listasögunnar þar sem átök á milli ólíkra hugsjóna og stefna voru áberandi í umræðunni. Sem dæmi má taka deilur um ólíka stíla í málverki á 3. og 4. áratug síðustu aldar, deilur um abstraktlist á 6. áratugnum eða snarpar umræður á milli málara og hugmyndalistamanna á þeim 9. Við vitum að margir hafa verið að skoða þessi tímabil og óskum því eftir því að félagsmenn sendi okkur hugmyndir að eigin erindum, eða ábendingar um möguleg erindi sem aðrir kynnu að luma á og tengjast þessum málum. Ekki þarf að taka fram að hér er frábært tækifæri fyrir félagsmenn að koma rannsóknum sínum á framfæri við almenning, nokkuð sem er mikilvægt í að tryggja og efla starfsgrundvöll okkar.

Vinsamlegast sendi hugmyndir ykkar á  hlynur@listfraedi.is.