Hádegisfyrirlestur Listfræðafélagsins: Lífsblómið – átök um fullveldið

Hádegisfyrirlestur Listfræðafélagsins: Lífsblómið – átök um fullveldið

Lífsblómið – átök um fullveldið

Fyrirlestur á vegum Listfræðafélags Íslands

Sigrún Alba Sigurðardóttir sýningarstjóri heldur fyrirlestur um sýninguna Lífsblómið. Fullveldi Íslands í 100 ár sem var opnuð í Listasafni Íslands síðastliðið sumar.

Sýningin fjallar eins og nafnið gefur til kynna um fullveldi Íslands. Það er í krafti fullveldisins sem við Íslendingar erum þjóð meðal þjóða, að við getum látið að okkur kveða, hvort sem er í mannréttindamálum, í umhverfismálum eða öðrum málum sem tekist er á um á alþjóðavettvangi. Það er í krafti fullveldisins sem við höfum eitthvað að gefa. Á síðustu 100 árum hefur víða verið tekist á um fullveldið og spurningar er varða stöðu Íslands í heiminum. Austurvöllur, Alþingi, fjölmiðlar og listasöfn hafa meðal annars verið vettvangur fyrir þessa umræðu. Í fyrirlestri sínum mun Sigrún Alba Sigurðardóttir, sýningarstjóri Lífsblómsins, beina sjónum sínum að hugmyndaheimi sýningarinnar og ekki síst þætti myndlistarinnar á sýningunni en fjöldi listamanna á verk á sýningunni og má þar nefna Ólöfu Nordal, Ragnar Kjartansson, Ólaf Elíasson, Lindu Vilhjálmsdóttur, Birgi Andrésson, Kristínu Jónsdóttur, Jóhannes Kjarval, Rúrí, Pétur Thomsen, Unnar Örn, Úlf Eldjárn, Steingrím Eyfjörð, Libiu Castro og Ólaf Ólafsson. Sýningin er samstarfsverkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðskjalasafns Íslands og Listasafns Íslands.

 

Sigrún Alba Sigurðardóttir er lektor og starfandi deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands. Auk kennslu og stjórnunarstarfa við Listaháskólann hefur Sigrún gefið út bækur og fræðigreinar á sviði ljósmyndafræði, arkitektúrs og menningarfræða og starfað með myndlistarmönnum við textagerð af ýmsu tagi. Helstu verkefni hennar sem sýningarhöfundar og sýningarstjóra eru Lífsblómið (Listasafn Íslands 2018), Leiftur á stund hættunar (Listasafn Árnesinga 2009) Þrælkun, þroski, þrá (Þjóðminjasafn Íslands 2009) og Heima-Heiman (Ljósmyndasafn Reykjavíkur 2008).

Málþing um framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins, 2015: Moskan — fyrsta moskan í Feneyjum

Málþing um framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins, 2015: Moskan — fyrsta moskan í Feneyjum

Framlag Íslands til Feneyjatvíærings þessa árs ber heitið MOSKAN – Fyrsta moskan í Feneyjum, eftir Christoph Büchel. Auglýst var eftir tillögum um verk og samstarfsteymi og var verkefni listamannsins valið í því ferli. Skálinn var opnaður almenningi þann 8. maí 2015 í Santa Maria della Misericordia-kirkj­unni í Cannareg­io-hverf­inu í Fen­eyj­um. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar heldur utanum verkefnið.

Framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins hefur áður vakið mikla athygli á alþjóðlegum vettvangi en sjaldan eins og í ár. Fjallað hefur verið um verkið í fjölmiðlum austan hafs og vestan og hefur það kallað á sterk viðbrögð. Sem kunnugt er var skálanum lokað af borgaryfirvöldum í Feneyjum þann 22. maí, tveimur vikum eftir opnun.

Hefð hefur skapast fyrir því að sýna framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins hér á landi í kjölfar sýningarinnar á Ítalíu. Verkið að þessu sinni býður varla upp á slíka yfirfærslu og því er boðað til málþings þar sem leitast verður við að velta upp sem flestum flötum verksins, íhuga samfélagslega merkingu þess, og viðbrögð við verkinu á breiðum grundvelli.

Sem frummælendur hefur verið leitað til fjögurra einstaklinga, sem munu í erindum sínum varpa fram hugmyndum er spretta upp af vangaveltum um verkið, MOSKAN– Fyrsta moskan í Feneyjum.

Þátttakendur í málþinginu eru:

Hlynur Helgason, myndlistarmaður og listfræðingur

Ólafur Gíslason, listfræðingur

Ragna Sigurðardóttir, myndlistarmaður, rithöfundur og gagnrýnandi

Stefano Rabolli Pansera, arkitekt og borgarfræðingur (urbanist).

Fundarstjóri er Guðni Tómasson, listsagnfræðingur

Dagskrá málþingsins:

Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands, setur þingið

Guðni Tómasson kynnir verkið, Moskuna

Hlynur Helgason

Ólafur Gíslason

Ragna Sigurðardóttir

– Hlé –

Stefano Rabolli Pansera

Pallborðsumræður

Almennar umræður

Til málþingsins efna Listasafn Íslands og Listfræðafélag Íslands í samstarfi við  Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og með stuðningi Sambands íslenskra myndlistarmanna, SÍM. Málþingið verður haldið laugardaginn 5. desember 2015, klukkan 11:00 – 14:30 í Listasafni Íslands, Fríkirkjuvegi 7, 101 Reykjavík og fer fram á íslensku og ensku.