Hádegisfyrirlestur Listfræðafélagsins: Lífsblómið – átök um fullveldið

Hádegisfyrirlestur Listfræðafélagsins: Lífsblómið – átök um fullveldið

Lífsblómið – átök um fullveldið

Fyrirlestur á vegum Listfræðafélags Íslands

Sigrún Alba Sigurðardóttir sýningarstjóri heldur fyrirlestur um sýninguna Lífsblómið. Fullveldi Íslands í 100 ár sem var opnuð í Listasafni Íslands síðastliðið sumar.

Sýningin fjallar eins og nafnið gefur til kynna um fullveldi Íslands. Það er í krafti fullveldisins sem við Íslendingar erum þjóð meðal þjóða, að við getum látið að okkur kveða, hvort sem er í mannréttindamálum, í umhverfismálum eða öðrum málum sem tekist er á um á alþjóðavettvangi. Það er í krafti fullveldisins sem við höfum eitthvað að gefa. Á síðustu 100 árum hefur víða verið tekist á um fullveldið og spurningar er varða stöðu Íslands í heiminum. Austurvöllur, Alþingi, fjölmiðlar og listasöfn hafa meðal annars verið vettvangur fyrir þessa umræðu. Í fyrirlestri sínum mun Sigrún Alba Sigurðardóttir, sýningarstjóri Lífsblómsins, beina sjónum sínum að hugmyndaheimi sýningarinnar og ekki síst þætti myndlistarinnar á sýningunni en fjöldi listamanna á verk á sýningunni og má þar nefna Ólöfu Nordal, Ragnar Kjartansson, Ólaf Elíasson, Lindu Vilhjálmsdóttur, Birgi Andrésson, Kristínu Jónsdóttur, Jóhannes Kjarval, Rúrí, Pétur Thomsen, Unnar Örn, Úlf Eldjárn, Steingrím Eyfjörð, Libiu Castro og Ólaf Ólafsson. Sýningin er samstarfsverkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðskjalasafns Íslands og Listasafns Íslands.

 

Sigrún Alba Sigurðardóttir er lektor og starfandi deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands. Auk kennslu og stjórnunarstarfa við Listaháskólann hefur Sigrún gefið út bækur og fræðigreinar á sviði ljósmyndafræði, arkitektúrs og menningarfræða og starfað með myndlistarmönnum við textagerð af ýmsu tagi. Helstu verkefni hennar sem sýningarhöfundar og sýningarstjóra eru Lífsblómið (Listasafn Íslands 2018), Leiftur á stund hættunar (Listasafn Árnesinga 2009) Þrælkun, þroski, þrá (Þjóðminjasafn Íslands 2009) og Heima-Heiman (Ljósmyndasafn Reykjavíkur 2008).