Greinasafn fyrir merki: Listasafn Árnesinga

spjall á sunnudaginn í LÁ kl. 3

HUGLÆG RÝMI
Ólafur með listamannsspjall 3. febrúar kl. 15:00

Innsetningin Huglæg rými eftir myndlistarmanninn Ólaf Svein Gíslason var nýlega opnuð í Listasafni Árnesinga. Sunnudaginn 3. febrúar kl. þrjú síðdegis mun Ólafur ganga um sýninguna, segja frá og ræða við gesti um innsetninguna sem samanstendur af kvikmynd sem varpað er á sex veggi, vatnslitaverkum, litlum skúlptúrum og milliveggjum sem á áhugaverðan hátt mynda eitt verk sem Ólafur sviðsetur í þrjá meginsali safnsins sem og í anddyrið. Allt verkið hverfist um nágranna Ólafs í Flóanum, Sigurð Guðmundsson á Sviðugörðum og er sprottin af samræðum þeirra tveggja. Handrit kvikmyndarinnar byggist á samtölum milli Ólafs og Sigurðar, en Ólafur lætur fimm einstaklinga segja frá sem Sigurður. Þeir eru auk Sigurðar sjálfs, einn lærður leikari, Þór Tulinius, og þrír sveitungar, ungur piltur, ungur maður og kona, þau Ágúst Þorsteinsson, Guðjón Helgi Ólafsson og Kristín Ólafsdóttir.
Sýningin hefur fengið afar jákvæð viðbrögð gesta og hún vekur einnig áhugaverðar vangaveltur inn í umræður samtímans svo sem sjálfbærni. Í sýningarskrá sem gefin er út með sýningunni rita bæði Dorothée Kirch og Margrét Elísabet Ólafsdóttir og grein Margrétar hefst og endar á þessum orðum: “Verk Ólafs Gíslasonar vekja spurningar um rými listarinnar og listaverksins, og þátt listamanns og annarra í sköpun þessa rýmis. … Huglæg rými dregur allt í senn upp mynd af sögu einstaklings og sögu samfélags sem jafnframt er saga af tíma, tímabilum og stað.”
Ólafur Sveinn Gíslason lauk myndlistarnámi á Íslandi 1983 og og hélt þá til Þýskalands í framhaldsnám. Þar bjó hann síðan og starfaðivið myndlist í um 25 ár en fljótlega eftir að hann tók við stöðu prófessors í myndlistardeild Listaháskóla Íslands flutti hann aftur heim og frá árinu 2015 hefur hann verið með vinnustofu á Þúfugörðum í Flóa.
Sýningin, sem er styrkt af Myndlistarsjóði, Myndstefi og Uppbyggingasjóði Suðurlands, mun standa til og með 31. mars 2019. Safnið er opið fimmtudaga – sunnudaga kl. 12-18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á spjallið.


Listasafn Árnesinga: Leiðsögn og listamannaspjall

Listamannaspjall með Önnu Hallin og Guðjóni Ketilssyni

 

Sunnudaginn 18. nóvember kl. 14:00 munu listamennirnir Anna Hallin og Guðjón Ketilsson spjalla við gesti um listaverk sín á sýningunni Halldór Einarsson í ljósi samtímans. Verk listamannanna á sýningunni eru ólík innbyrðis þó handverkið sameini þau og á mismunandi hátt kallast verk yngri listamanna á við verk Halldórs. Anna og Guðjón eru tveir af fjórum núlifandi listamönnum sem boðin var þátttaka í sýningunni vegna mismunandi tenginga við myndlist og feril Halldórs Einarssonar, sem fæddur var 1893.

Guðjón vinnur einkum skúlptúra og teikningar og verk hans eru víða að finna í söfum. Í forgrunni flestra þeirra er mannslíkaminn, nærvera hans eða fjarvera. Aðalefniviður Guðjóns hefur um langt skeið  verið tré eins og hjá Halldóri og verk Guðjóns sem bera heitið Verkfæri  eru líka eins konar minni, eða óður til, verkfæra og handlagni. Í nafnlausu verki eftir Guðjón hefur hann líka umbreytt gömlu húsgagni í skúlptúr og þrátt fyrir eigin merkingu kallast skúlptúrinn á við tímabil í ferli Halldórs er hann vann við tréskurð í húsgagnaverksmiðju í Chicago. Eftir Guðjón er líka verkið Hár, sem er innsetning á gólfi og enn í vinnslu.

Anna hefur fyrst og fremst fengist við mótun og efniviðurinn gjarnan leir. Undanfarið hefur hún einnig unnið teikningar og um árabil hefur hún unnið að myndlist í samstarfi við myndlistarmanninn Olgu Bergmann, ekki síst á sviði myndlistar í opinberu rými. Á sýningunni í Listasafni Árnesinga bera verk Önnu heitin Valdakonur, Skriffinnar, Selfie og Listamenn, og eiga það sameiginlegt að vera portrett, en þau eru unnin með mismunandi tækni og af ólíkum toga. Þrátt fyrir það kallast þau á við fjölbreytt portret Halldórs og að auki eiga Anna og Halldór það sameiginlegt að vera fædd og uppalin í öðru landi en þau settust að í, til starfa.

Sýningin Halldór Einarsson í ljósi samtímans hefur verið framlengd til 16. desember. Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12-18. Aðgangur er ókeypis, líka á spjallið og allir velkomnir.

Nánari upplýsingar:

Inga Jónsdóttir safnstjóri, sími 895 1369, inga@listasafnarnesinga.is

Listasafn Árnesinga: Rósa Sigrún spjallar við gesti á sunnudaginn

Grös rædd á sýningunni Halldór Einarsson í ljósi samtímans

 

Sunnudaginn 11. nóvember kl. 14:00 mun listamaðurinn Rósa Sigrún Jónsdóttir spjalla við gesti um verk sín á sýningunni Halldór Einarsson í ljósi samtímans. Verk Rósu bera öll yfirheitið Grös og samastanda ýmist af þrívíðri heklaðri og málaðri blómabreiðu eða teikningum og útsaumi. Grös kallast á við það tímabil í lífshlaupi Halldórs Einarssonar þegar hann settist að í skógi í útjaðri Chicago og sagist þar hafa kynnst „ákjósanlegri lífverum en mannfólkinu; blómum og trjám …“  Auk þess að bjóða upp á samtal við Rósu Sigrúnu munu fræðslufulltrúar safnsins, Hrönn Traustadóttir og Kristín Þóra Guðbjartsdóttir ganga um sýninguna, segja frá og svara spurningum gesta.

Með sýningunni er Listasafn Árnesinga að rýna í menningararfinn og lætur verk fjögurra núlifandi listamanna eiga í samtali við og varpa nýju ljósi á verk Halldórs á aldarafmæli fullveldis Íslands. Halldór Einarsson fæddist árið 1893 í Brandshúsum í Flóa. Hann lærði tréskurð og teikningu hjá Stefáni Eiríkssyni, en flutti árið 1922 til Vesturheims og starfaði lengst af við tréskurð í húsgagnaverksmiðju í Chicago. Meðfram þeirri vinnu skapaði hann mikinn fjölda verka í tré, stein og önnur efni. Eftir 45 ár ytra flutti Halldór aftur til Íslands og gaf Árnessýslu verk sín ásamt peningagjöf. Það var önnur tveggja stofngjafa Listasafns Árnesinga, sem fagnaði 55 ára afmæli í október.  Á sýningunni myndast óvæntar tengingar í ýmsar áttir, frá húsgögnum til bóka, handverki til náttúru, lækninga til stjórnmála, valdi til kvenna.

Rósa Sigrún Jónsdóttir er fædd árið 1962 og nam myndlist við Listaháskóla Íslands. Hún á að baki fjölda sýninga hér á landi sem erlendis, bæði einka- og samsýningar.  Verk eftir hana er að finna í opinberu rými á Íslandi og í Finnlandi og hún hefur hlotið innlendar og erlendar viðurkenningar, nú síðast Premio Ora Art Price. Rósa Sigrún vinnur aðallega með textíl, allt frá stórum þrívíðum innsetningum í lítil, tvívið verk. Sem fjallaleiðsögumaður fangar hún áhrif frá íslenskri náttúru sem hún vinnur með í verkum sínum. Á sunnudaginn gefst tækifæri til þess að ræða við Rósu, spyrja og ræða ólíkar aðferðir listsköpunar og uppsprettu hugmynda.

Sýningin Halldór Einarsson í ljósi samtímans hefur verið framlengd til 16. desember. Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12-18. Aðgangur er ókeypis, líka á spjallið og allir velkomnir.

Nánari upplýsingar:

Hrönn Traustadóttir fræðslufulltrúi, sími 696 2134, hronn@listasafnarnesinga.is

Kristín Þóra Guðbrandsdóttir ffræðslufulltrúi, sími 692 1733, kristin@listasafnarnesinga.is