Það eru engir vídeólistamenn á Íslandi — Listasafni Reykjavíkur 27. apríl kl. 20

Það eru engir vídeólistamenn á Íslandi — Listasafni Reykjavíkur 27. apríl kl. 20

Margrét Elísabet Ólafsdóttir
 flytur fyrirlestur titlaðan „Það eru engir vídeólistamenn á Íslandi
“ fimmtudag, 27. apríl kl. 20 í Listasafn Reykjavíkur — Hafnarhúsi. 



Titill fyrirlestrarins vísar í svör íslenskra listamanna sem tóku þátt í norrænni rannsókn árið 2002. Þar kom í ljós að þeir myndlistarmenn sem höfðu gert myndbandsverk vildu alls ekki láta kalla sig „vídeólistamenn“. Þeir frábáðu sér allar niðurnjörvanir og fullyrtu að jafnvel þótt verk væru tekin upp með vídeótækni þýddi það ekki að verkin væru vídeóverk.

Fyrirlestrinum er ætlað að varpa ljósi á rætur þessarar þversagnar með því að skoða eldri skilgreiningar á vídeólist og fjalla um breytta afstöðu myndlistarmanna almennt til miðilsins á tíunda áratugnum.

Margrét Elísabet Ólafsdóttir er lektor í listgreinakennslu við Háskólann á Akureyri auk þess sem hún starfar sem sýningarstjóri og gagnrýnandi. Hún lauk doktorsprófi í list- og fagurfræði árið 2013, en sama ár setti hún upp  sýningu á Íslenskri vídeólist frá 1975 til 1990 í Listasafni Reykjavíkur. Margrét hefur lengi unnið að málefnum raf- og stafrænna lista á Íslandi, m.a. með Lornu, félagi áhugamanna um rafræna list og tekið þátt í alþjóðlegum verkefnum á sama sviði. Hún er nú þátttakandi í MakEY, alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem miðar að því að skoða hvernig bæta megi stafrænt læsti og sköpunarkraft ungra barna út frá þátttöku þeirra í svokölluðum Makerspaces. Auk þess vinnu hún að undirbúningi sýningar í samvinnu við Listasafn Árnesinga og ritunar bókar um Steinu Vasulka.

STEFNUMÓT —  Spegill tímans og starfið framundan

STEFNUMÓT — Spegill tímans og starfið framundan

Nú er að hefjast vetrarstarf Listfræðafélagsins. Fyrsti viðburðinn er Spegill tímans, fyrirlestur Aðalheiðar Valgeirsdóttur og Aldísar Arnardóttur sem fram fer í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag miðvikudaginn 7. september frá 12 til 13. Fyrirlesturinn er fyrsti fyrirlesturinn í nýrri fyrirlestraröð Listfræðafélagins í Safnahúsinu. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.

Við skorum á félagsmenn að mæta til að kynnast akoðun þeirra Aðalheiðar og Aldísar á verkum Karls Kvaran í samspili við samtímamálverk Erlu Þórarinsdóttur.

Næst á dagskrá hjá félaginu verður félagsfundur þann 21. september sem stefnt er að að eigi sér stað á Jakobsen Lofti í Austurstræti. Þar verður tekin fyrir umsókn þriggja aðila um félagsaðild en eftir það fara fram óformlegar umræður á milli félagsmanna um störf þeirra á listfræðavettvangi og möguleika í framtíðarstarfi félagsins.

Málþing um framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins, 2015: Moskan — fyrsta moskan í Feneyjum

Málþing um framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins, 2015: Moskan — fyrsta moskan í Feneyjum

Framlag Íslands til Feneyjatvíærings þessa árs ber heitið MOSKAN – Fyrsta moskan í Feneyjum, eftir Christoph Büchel. Auglýst var eftir tillögum um verk og samstarfsteymi og var verkefni listamannsins valið í því ferli. Skálinn var opnaður almenningi þann 8. maí 2015 í Santa Maria della Misericordia-kirkj­unni í Cannareg­io-hverf­inu í Fen­eyj­um. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar heldur utanum verkefnið.

Framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins hefur áður vakið mikla athygli á alþjóðlegum vettvangi en sjaldan eins og í ár. Fjallað hefur verið um verkið í fjölmiðlum austan hafs og vestan og hefur það kallað á sterk viðbrögð. Sem kunnugt er var skálanum lokað af borgaryfirvöldum í Feneyjum þann 22. maí, tveimur vikum eftir opnun.

Hefð hefur skapast fyrir því að sýna framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins hér á landi í kjölfar sýningarinnar á Ítalíu. Verkið að þessu sinni býður varla upp á slíka yfirfærslu og því er boðað til málþings þar sem leitast verður við að velta upp sem flestum flötum verksins, íhuga samfélagslega merkingu þess, og viðbrögð við verkinu á breiðum grundvelli.

Sem frummælendur hefur verið leitað til fjögurra einstaklinga, sem munu í erindum sínum varpa fram hugmyndum er spretta upp af vangaveltum um verkið, MOSKAN– Fyrsta moskan í Feneyjum.

Þátttakendur í málþinginu eru:

Hlynur Helgason, myndlistarmaður og listfræðingur

Ólafur Gíslason, listfræðingur

Ragna Sigurðardóttir, myndlistarmaður, rithöfundur og gagnrýnandi

Stefano Rabolli Pansera, arkitekt og borgarfræðingur (urbanist).

Fundarstjóri er Guðni Tómasson, listsagnfræðingur

Dagskrá málþingsins:

Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands, setur þingið

Guðni Tómasson kynnir verkið, Moskuna

Hlynur Helgason

Ólafur Gíslason

Ragna Sigurðardóttir

– Hlé –

Stefano Rabolli Pansera

Pallborðsumræður

Almennar umræður

Til málþingsins efna Listasafn Íslands og Listfræðafélag Íslands í samstarfi við  Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og með stuðningi Sambands íslenskra myndlistarmanna, SÍM. Málþingið verður haldið laugardaginn 5. desember 2015, klukkan 11:00 – 14:30 í Listasafni Íslands, Fríkirkjuvegi 7, 101 Reykjavík og fer fram á íslensku og ensku.

Félagsfundur — Kristín Dagmar Jóhannesdóttir um Sjónlistarverðlaunin

Fjórði félagsfundur félagsins í vetur verður þann 5. desember kl. 17 á efri hæðinni á Kaffi Sólon í Bankastræti.

Kristín Dagmar Jóhannesdóttir kemur til með að hefja umræðu kvöldsins með hugleiðingum um Sjónlistaverðlaunin sem veitt voru í haust og hvernig tekist hefur til við að endurvekja þennan viðburð. Í kjölfarið er stefnt að almennum umræðum á meðal félagsmanna um viðburði sem þessa og möguleika félagsmanna á því að vera með krítíska aðkomu að slíkum viðburðum, skipulagi þeirra, framkvæmd og markmiðum.

Nú er búið að halda þrjá félagsfundi í vetur og hafa þeir mælst vel á meðal félagsmanna. Þar sem fyrsti miðvikudagur í næsta mánuði verður strax eftir áramót verður dagskrá hnikað til og sá fundur er áætlaður þann 9. janúar.

Félagsfundur — Halldór Björn Runólfsson um Documenta 13

Þriðji félagsfundur félagsins í vetur verður þann 7. nóvember kl. 17 á efri hæðinni á Kaffi Sólon í Bankastræti.

Umræðuefni undarins verður þrettánda Documenta sýningin sem var haldin í Kassel í Þýskalandi í sumar. Halldór Björn Runólfsson safnstjóri Listasafns Íslands verður með framsögu og kynnir sýn sína af sýningunni. Í kjölfar innleggs Halldórs Bjarnar er þess að vænta að fjörugar umræður skapist um upplifun manna af sýningunni og forsendur hennar.

Nú er búið að halda tvo félagsfundi í vetur og hafa í hvort skiptið mætt á milli 10 til 20 manns. Þetta heur reynst áhugaverður vettvangur samskipta og verður það vonandi áfram.

Stefnt er að því að halda áfram með félagsfundina í vetur. Þeir verða fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði ef því verður komið við.

Næsti viðburður á dagskrá félagsins verður opið málþing á vegum félagsins um miðlun og móttöku umræðu um samtímalist á Íslandi. Málþingið verður haldið laugardaginn 24. nóvembrer frá 13 til 15. Það kemur til með að fara fram í fjölnotasal Hafnarhússins í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur. Þar koma Harpa Þórsdóttir, Hlynur Helgason, og Markús Þór Andrésson til með að flytja krítísk erindi um álit sína á þessum málum hér á landi. Við komum til með að kynna málþingið betur á félagsfundinum og ræða forsendur þess.