STEFNUMÓT — Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir — Spegill tímans

STEFNUMÓT — Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir — Spegill tímans

Spegill tímans, fyrirlestur Aðalheiðar Valgeirsdóttur og Aldísar Arnardóttur sem fram fer í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 7. september frá 12 til 13. Fyrirlesturinn er fyrsti fyrirlesturinn í nýrri fyrirlestraröð Listfræðafélagins í Safnahúsinu. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.

Eitt af viðfangsefnum listfræðinnar er að skoða myndlistina útfrá mismunandi sjónarhornum og setja í samhengi við orðræðu og tíðaranda hvers tíma. Í fyrirlestrinum Spegill tímans, fjalla listfræðingarnir og sýningarstjórarnir Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir um það samtal sem verður til þegar verkum listamanna tveggja kynslóða er teflt saman, líkt og gert er á sýningunni Tímalög sem nú stendur yfir í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Þar eru sýnd verk eftir listamennina Karl Kvaran (1924-1989) og Erlu Þórarinsdóttur (1955). Þær Aðalheiður og Aldís munu segja frá tilurð sýningarinnar, vinnuferlinu og þeirri aðferðafræði sem liggur að baki sýningarverkefninu.

Aðalheiður Valgeirsdóttir er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk BA prófi í listfræði með menningarfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 2011 og MA prófi í sömu grein árið 2014.

Aldís Arnardóttir er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA prófi í listfræði, með menningarfræði sem aukagrein árið 2012.

 

 

Félagsfundur — Birta Guðjónsdóttir og Markús Þór Andrésson um Momentum

Félagsfundur — Birta Guðjónsdóttir og Markús Þór Andrésson um Momentum


Næsti félagsfundur Listfræðafélagsins verður á Kaffi Sólon, 2. hæð, kl. 17, miðvikudaginn 7. október 2015.

Fjallað verður um Momentum tvíæringinn í Moss í Noregi. Félagar okkar í Listfræðafélaginu, Birta Guðjónsdóttir og Markús Þór Andrésson, segja frá aðkomu sinni sem sýningarstjórar þessa norræna listviðburðar.

Birta var einn af fjórum sýningarstjórum Momentum 8 sem lauk 27. september síðastliðinn og Markús Þór var einn af fimm sýningarstjórum Momentum 6 árið 2011. Þá hefur fjöldi íslenskra myndlistarlistamanna tekið þar þátt. Við hvetjum félagsmenn til að nýta þetta tækifæri til að kynnast þessari mikilvægu norrænu listastofnun sem og sýningarstjórnarferlinu frá fyrstu hendi. Hér má nálgast upplýsingar um Momentum: http://www.momentum.no/about-momentum.347751.en.html

Félagsfundur — Kristín Dagmar Jóhannesdóttir um Sjónlistarverðlaunin

Fjórði félagsfundur félagsins í vetur verður þann 5. desember kl. 17 á efri hæðinni á Kaffi Sólon í Bankastræti.

Kristín Dagmar Jóhannesdóttir kemur til með að hefja umræðu kvöldsins með hugleiðingum um Sjónlistaverðlaunin sem veitt voru í haust og hvernig tekist hefur til við að endurvekja þennan viðburð. Í kjölfarið er stefnt að almennum umræðum á meðal félagsmanna um viðburði sem þessa og möguleika félagsmanna á því að vera með krítíska aðkomu að slíkum viðburðum, skipulagi þeirra, framkvæmd og markmiðum.

Nú er búið að halda þrjá félagsfundi í vetur og hafa þeir mælst vel á meðal félagsmanna. Þar sem fyrsti miðvikudagur í næsta mánuði verður strax eftir áramót verður dagskrá hnikað til og sá fundur er áætlaður þann 9. janúar.