Það eru engir vídeólistamenn á Íslandi — Listasafni Reykjavíkur 27. apríl kl. 20

Það eru engir vídeólistamenn á Íslandi — Listasafni Reykjavíkur 27. apríl kl. 20

Margrét Elísabet Ólafsdóttir
 flytur fyrirlestur titlaðan „Það eru engir vídeólistamenn á Íslandi
“ fimmtudag, 27. apríl kl. 20 í Listasafn Reykjavíkur — Hafnarhúsi. Titill fyrirlestrarins vísar í svör íslenskra listamanna sem tóku þátt í norrænni rannsókn árið 2002. Þar kom í ljós að þeir myndlistarmenn sem höfðu gert myndbandsverk vildu alls ekki láta kalla sig „vídeólistamenn“. Þeir frábáðu sér allar niðurnjörvanir og fullyrtu að jafnvel þótt verk væru tekin upp með vídeótækni þýddi það ekki að verkin væru vídeóverk.

Fyrirlestrinum er ætlað að varpa ljósi á rætur þessarar þversagnar með því að skoða eldri skilgreiningar á vídeólist og fjalla um breytta afstöðu myndlistarmanna almennt til miðilsins á tíunda áratugnum.

Margrét Elísabet Ólafsdóttir er lektor í listgreinakennslu við Háskólann á Akureyri auk þess sem hún starfar sem sýningarstjóri og gagnrýnandi. Hún lauk doktorsprófi í list- og fagurfræði árið 2013, en sama ár setti hún upp  sýningu á Íslenskri vídeólist frá 1975 til 1990 í Listasafni Reykjavíkur. Margrét hefur lengi unnið að málefnum raf- og stafrænna lista á Íslandi, m.a. með Lornu, félagi áhugamanna um rafræna list og tekið þátt í alþjóðlegum verkefnum á sama sviði. Hún er nú þátttakandi í MakEY, alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem miðar að því að skoða hvernig bæta megi stafrænt læsti og sköpunarkraft ungra barna út frá þátttöku þeirra í svokölluðum Makerspaces. Auk þess vinnu hún að undirbúningi sýningar í samvinnu við Listasafn Árnesinga og ritunar bókar um Steinu Vasulka.

Félagsfundur — Margrét Elísabet Ólafsdóttir um sögu vídeólistar á Íslandi

Félagsfundur að loknum aðalfundi SÍM-húsinu við Hafnarstræti laugardaginn 29. mars frá 16 til 17. Margrét Elísabet Ólafsdóttir er frummælandi og flytur félagsmönnum erindi undir titlinum: Hvernig á að segja sögu vídeólistar á Íslandi ?
Í erindinu tekur hún fyrir spurningar um listfræðileg málefni, tengsl söfnunar, skráningar, söguritunar og fræða eins og sjá má í lýsingu sem fylgir hér á eftir.
Vonast er til þess að í kjölfarið verði líflegar umræður um málið, aðferðir og möguleika listfræðinnar til að segja sögu myndlistar á Íslandi.
Útdráttur erindis: Hvernig á að segja sögu vídeólistar á Íslandi ?

Það er auðvelt fyrir rannsakanda að lýsa því yfir að hann ætli sér að segja sögu íslenskrar vídeólistar. Það er erfiðara að ákveða hvernig nálgast á viðfangsefnið, ekki síst þegar flestir viðmælendur eru sammála um að á Íslandi hafi aldrei verið til vídeólist. Hvað merkir það ? Í þessu erindi ætla ég að gera tilraun til að svara þeirri spurningu um leið og ég fjalla um aðferðafræði rannsókna minna á íslenskri vídeólist og hvernig hún hefur mótast af aðstæðum. Ég mun segja frá upphafi verkefnisins, ástæðum þess að það var lagt til hliðar og síðan tekið upp aftur. Þá mun ég gera grein fyrir sýningunni “Íslensk vídeólist frá 1975-1990” sem sett var upp í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsinu síðastliðið haust og ræða hvernig forsendur rannsóknarinnar réðu áherslunum við uppsetningu sýningarinnar.

Félagsfundur — Hlynur Helgason kynnir doktorsritgerð sína

Til stóð að Kristín Dagmar væri með upphafsinnlegg um Sjónmenningaverðlaun og mögulega aðkomu félagsins að slíkum viðburðum. Því miður þurfum við að fresta þeirri umræðu vegna forfalla Kristínar.

Í staðinn ætlum við að fylgja ágætri tillögu Margrétar Elísabetar um að undirritaður, Hlynur Helgason, flytji erindi sem stjórnin hafði ætlað að setja á dagskrá síðar.

Erindi hans kemur til með að fjalla um rannsóknir hans á vettvangi heimspeki listmiðlunar út frá doktorsritgerð sem hann varði sumarið 2011 og er að ganga frá til útgáfu eins og stendur. Ritgerðin, sem í útgáfu ber titilinn, “The Beyond Within: “Post-Cinematic” Possibilities of Play and Action”,er í verufræðileg greining á möguleikum listar til áhrifa með vísan í valin dæmi úr myndlist og kvikmyndun.

Það er von okkar að í kjölfar innleggs Hlyns skapist ágætar umræður um málefni samtímalistar og aðferðafræði við að greina áhrif hennar og virkni.