Hér er aðgengileg upptaka af málþingi Listfræðafélags Íslands og Þjóðminjasafns Íslands sem haldið var til heiðurs Þóru Kristjánsdóttur í Þjóðminjasafninu 23. janúar 2021.

Dagskrá málþingsins:
• Margrét Elísabet Ólafsdóttir, formaður Listfræðafélagsins, kynnir Þóru Kristjánsdóttur og dagskrá málþingsins
• Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, flytur ávarp.
• Lilja Árnadóttir, fyrrverandi sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins, segir frá samstarfi þeirra Þóru.
• Arndís Árnadóttir, hönnunarsagnfræðingur, og Guðrún Tryggvadóttir, myndlistarmaður, segja frá tilurð bókarinnar Lífsverk. Þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar
• Eyrún Óskarsdóttir listfræðingur fjallar um myndmál á miðöldum.

Þóra Kristjánsdóttir var valin fyrsti heiðursfélagi Listfræðafélags Íslands árið 2020. Hún lauk Fil.kand.-prófi í lista- og menningarsögu frá Stokkhólmsháskóla 1971 og MA-prófi í sagnfræði við HÍ 1999.
Þóra var starfsmaður Listasafns Íslands 1965-67, fréttamaður RÚV 1968-74, listráðunautur Norræna hússins 1974-79, listráðunautur Kjarvalsstaða 1979-86 og sérfræðingur hjá Þjóðminjasafni Íslands 1987-2010. Hún sat í ýmum stjórnum s.s. Listahátíðar í Reykjavík, kirkjulistanefnd Þjóðkirkjunnar og Listvinafélagi Hallgrímskirkju. Hún kom að uppsetningu fjölmargra myndlistasýninga og sinnti fjölda annarra trúnaðarstarfa í tengslum við starf sitt og menntun.Þóra ritaði greinar í ýmis bindi ritraðarinnar Kirkjur Íslands, m.a. um kirkjugripi, en ritröðin var samstarfsverkefni Þjóðminjasafnsins, húsafriðunarnefndar og biskupsstofu. Hún hefur skrifað fjölda greina og gert útvarps- og sjónvarpsþætti um listir og listamenn á Íslandi. Tímamótaverk Þóru er bókin Mynd á þili, íslenskir myndlistarmenn á 16., 17. og 18. öld. Bókin er jafnframt meðal grundvallarrita Þjóðminjasafnsins og kom út í tengslum við samnefnda sýningu í Bogasal safnsins árið 2005.

Þóra var sæmd Hinni íslensku fálkaorðu 2006.