Hvað má læra af átökunum milli FÍM og SÚM haustið 1969? er heiti fyrirlestrar sem Halldór Björn Runólfsson sem  flytur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 3. maí frá 12 til 13.  Fyrirlesturinn er sá fjórði og síðasti í fyrirlestraröð sem Listfræðafélagið stendur fyrir nú í vor í samvinnu við Safnahúsið. Yfirskrift fyrirsestraraðarinnar er Átakalínur í íslenskri myndlist. Markmiðið er að kynna rannsóknir félagsmanna á lykiltímabilum í íslenskri list á liðinni öld þar sem átök á milli ólíkra hugsjóna og stefna voru áberandi í umræðunni.

Þrengri forsendur málsins má rekja til höfnunar stjórnar FÍM á risaverki Rósku (1940-1996) Afturhald, kúgun, morð, frá 1969, núna í eigu Listasafns Reykjavíkur, sem listakonan sendi á samsýningu félagsins um haustið sama ár. Þáverandi ritari Félags íslenskra myndlistarmanna, Kjartan Guðjónsson (1921-2010) listmálari varði höfnun samtakanna í grein sem birtist í Þjóðviljanum 26. September 1969:

„Það er víst ekki farið framhjá neinum, að hingað til staðarins er komin foksill stelpa frá Róm, og þau undur hafa skeð að Þjóðviljinn hefur séð ástæðu til að birta myndlistarfréttir í ramma á forsíðu…. Í sýningarsamtökum ungra listamanna, SÚM, eru nokkrir menn allvel og sumir ágætlega af guði gerðir, þótt þeir séu illa haldnir af meinlokum og enn verr af þekkingarskorti, að undanskildum spámanninum diter rot. Þetta stendur til bóta því að hæfileikar brjótast fram úr bæði meinlokum og fáfræði. Það eitt virðist nægja að lyfta kaffibolla á Mokka, lýsa því yfir að maður sé genginn í SÚM, og amlóðinn er óðar orðinn listamaður á heimsmælikvarða.“

Eftir því sem tími leyfir verður reynt að skoða ýmsar hliðar málsins:
1]    Rætur þessara ákveðnu átaka og sérstöðu
2]    Hliðstæður/sérstöðu þessara átaka og fyrri átaka í sögu íslenskrar 20. aldar listar
3]    Eðli nýsköpunar og takmörk í framvindu myndlistar og vitund um slíkt ferli
4]    Mismunur á afstöðu FÍM og SÚM til áhorfandans og hlutverks hans sem aðnjótanda og þátttakanda í sýningum
6]     Takmörk listræns skilnings