Fyrsta almenna listasýningin 1919: Um Listvinafélagið og mótun íslenskrar fagurmenningar

Í ár eru liðin 100 ár frá því að Listvinafélag Íslands var stofnað í Reykjavík. Af því tilefni efnir Listfræðafélag Íslands til hádegisfyrirlestra um Listvinafélagið og efni tengd því í lestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu, vorið 2016.
Fyrirlesarar eru félagsmenn Listfræðafélags Íslands og eru allir velkomnir.

Fjórði og síðasti fyrirlesturinn í röðinni verður haldinn miðvikudaginn 4. maí, kl. 12–13 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Þar flytur Benedikt Hjartarson, prófessor í almennribókmenntafræði við Háskóla Íslands, erindi sem ber titilinn Fyrsta almenna listasýningin 1919: Um Listvinafélagið og mótun íslenskrar fagurmenningar.

Í erindinu verður fjallað um fyrstu árin í starfsemi Listvinafélagsins og leitast við að setja þau í hugmynda- og menningarsögulegt samhengi. Í forgrunni verður fyrsta almenna íslenska listasýningin árið 1919 og þær hræringar sem greina má í íslensku menningarlífi á þeim tíma. Á árunum 1919 og 1920 rata nýjar og framsæknar listhreyfingar í Evrópu, á borð við fútúrisma, dadaisma og kúbisma, af krafti inn í íslenska menningarumræðu og gegna mikilvægu hlutverki við mótun hugmyndarinnar um íslenska nútímalist. Viðbrögðin við nýstárlegri og tilraunakenndri fagurfræði umræddra hreyfinga voru blendin hér á landi, þó má greina ákveðna sátt í afstöðunni til hreyfinganna. Erindinu er ætlað að bregða upp mynd af þessari sátt og hlutverki hennar í því verkefni að siðvæða þjóðina með fagvæðingu listavettvangsins og mótun íslenskrar fagurmenningar. Í þessu tilliti verður einkum horft til skrifa Guðmundar Finnbogasonar, Sigurðar Nordals, Jóns Björnssonar og Alexanders Jóhannessonar frá árunum 1918-1920.