„Momentum 9 – Alienation“ er heiti fyrirlestrar Jóns B. K. Ransu sem fer fram í Safnahúsinu við Hverfisgötu, miðvikudaginn 1. nóvember kl. 12. Ransu var einn af fimm sýningarstjórum Momentum tvíæringsins sem lauk nú í október í Moss í Noregi. Momentum er einhver stærsta sýning á samtímamyndlist á Norðurlöndunum.

Ransu mun fara yfir sýninguna í máli og myndum og fjalla um þá listamenn sem tóku þátt ásamt því að fjalla um vinnuferli sýningarstjóranna í aðdraganda sýningarinnar.

Ransu er myndlistarmaður og deildarstjóri við Listmálaradeild Myndlistaskólans í Reykjavík, en hefur áður kennt við Listaháskóla Íslands. Hann hefur tekið að sér sýningarstjórn fyrir söfn og gallerí, eins og Listasafn Íslands, Listasafn Reykajavíkur og Nýlistasafnið. Hann var myndlistargagnrýnandi Morgunblaðsins um árabil og hefur gefið út bækur og skrifað um myndlist í sýningarskrár og fræðitímarit á Íslandi og erlendis.

Yfirskrift fyrirlestrarraðarinnar sem Listfræðafélagið stendur fyrir í samvinnu við Safnahúsið nú í haust er Miðill – Efni – Merking. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verð meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.