Uppbrot, fyrirlestur Dorothée Kirch, verður fluttur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 5. október frá 12 til 13.  Í fyrirlestrinum ræðir Dorothée tilurð og forsendur sýningar sinnar  í Ásmundarsafni þar sem verk Elínar Hansdóttir eru sett í samhengi verka Ásmundar Sveinssonar. Fyrirlesturinn er annar fyrirlesturinn í fyrirlestraröð Listfræðafélagins í samvinnu við Safnahúsið nú í haust. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.

Hlutskipti listamanna hefur oft verið að brjóta upp gömul og gildandi viðhorf. Ásmundur Sveinsson (1893–1982) talaði um að fá fólk til að „vakna til meðvitundar um að það er ekki skynlausar skepnur.“ Elín Hansdóttir (f. 1980) segir listina eiga að „kippa undan þér fótunum og fá þig til að endurmeta fastmótaðar hugmyndir þínar.“

Elín og Ásmundur vinna með þrívíddina á ólíkan hátt, hann fangar form í efni, hún endurskilgreinir rýmið. Átökin milli nýrra verka Elínar og verka Ásmundar opna áhorfendum nýja sýn. Á milli kynslóðanna eru fjölmargir ósættanlegir þræðir sem skapa áhugaverða spennu en þar er einnig að finna kraftmikinn samhljóm.

Elín leggur áherslu á upplifun áhorfandans af verkum sínum. Þau eru þannig opin og bjóðandi, tilbúnar aðstæður þar sem skynjun einstaklingsins er ögrað. Það er vel líklegt að verk hennar sýni okkur ekki neitt, séu aðeins látbragð sem kveikir viðbrögð.

Ásmundur var á meðal frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar og sótti innblástur fyrst og fremst í íslenska náttúru og bókmenntir, sem og til þjóðarinnar í landinu. Efnismikil, kröftug og stundum ógnandi verk hans eru lík þeim kynjamyndum sem lesa má úr íslenskri náttúru.


Dorothée Kirch hefur starfað við myndlist á Íslandi frá árinu 2001 þar á meðal hjá Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Listahátíð í Reykjavík og Listasafni Íslands. Hún gegndi stöðu framkvæmdastjóra íslenska skálans á Feneyjartvíæringnum árin 2011 og 2013 og var sýningarstjóri íslenska skálans á Feneyjatvíæringi árið 2009. Árin 2010 og 2014 var Dorothée framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar. Dorothée útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005.