„-30 / +60“, fyrirlestur Eiríks Þorlákssonar, verður fluttur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 7. desember frá 12 til 13.  Fyrirlesturinn er fjórði fyrirlesturinn og sá síðasti í fyrirlestraröð Listfræðafélagins í samvinnu við Safnahúsið nú í haust. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.

Haustið 1998 fyllti sýningin „-30 / 60+“ alla sali og ganga Kjarvalsstaða, en í henni voru valin saman í einn stað verk listafólks af tveimur ólíkum kynslóðum; annars vegar bar fyrir augu gesta verk ungrar kynslóðar listafólks – undir þrítugu – sem var að koma fram á myndlistarvettvangi af fullum krafti, og hins vegar verk vel þekktra listamanna – yfir sextugt – sem höfðu öðlast viðurkenndan sess í myndlistarlífinu eftir öflugt og markvisst starf um áratuga skeið og voru enn í fullu fjöri.

Með því að leiða saman þetta listafólk – sitt hvoru megin við hefðbundna valdakynslóð hvers tíma – var varpað fram spurningum mögulegar andstæður, tengsl, rof eða hvort þráður listsköpunarinnar reyndist heill og óskiptur milli þessara kynslóða.
Orðspor sýningarinnar „-30 / 60+“ hefur lifað í minningunni, og í fyrirlestrinum mun Eiríkur Þorláksson, annar sýningarstjóranna, rifja hana upp og lýsa henni nánar, sem og þeim viðbrögðum sem hún vakti.