Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans

Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans

Gunnar J. Árnason listheimspekingur flytur fyrirlesturinn „Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans“ á vegum Listfræðafélags Íslands miðvikudaginn 4. apríl kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Gunnar er höfundur bókarinnar Ásýnd heimsins, um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans. Í henni er fjallað hvernig listir og fagurfræði hafa haft áhrif á margar af þeim heimspekilegu hugmyndum sem gegndu stóru hlutverki í að skapa hugmyndaheim nútímans frá átjándu öld til loka tuttugustu aldar. Í erindi sínu mun Gunnar ræða um listfræði, listasögu og listgagnrýni, í ljósi þessarar sögu og velta fyrir sér þeirri spurningu hver staða listfræði er í hugmyndaheimi nútímans og hvaða erindi hún á við samtímann. Hvað ætlar hún sér með listina, hvað ætlar hún sér með okkur?

Gunnar J. Árnason hefur skrifað um myndlist um árabil og verið stundakennari við Listaháskóla Íslands. Hann lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og School of Visual Arts í New York áður en hann sneri sér að heimspeki við Háskóla Íslands og listheimspeki og fagurfræði við Cambridge háskóla á Englandi.

Ásýnd heimsins, um list og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans, kom út á vegum Listaháskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar árið 2017.

Félagsfundur — Margrét Elísabet Ólafsdóttir um sögu vídeólistar á Íslandi

Félagsfundur að loknum aðalfundi SÍM-húsinu við Hafnarstræti laugardaginn 29. mars frá 16 til 17. Margrét Elísabet Ólafsdóttir er frummælandi og flytur félagsmönnum erindi undir titlinum: Hvernig á að segja sögu vídeólistar á Íslandi ?
Í erindinu tekur hún fyrir spurningar um listfræðileg málefni, tengsl söfnunar, skráningar, söguritunar og fræða eins og sjá má í lýsingu sem fylgir hér á eftir.
Vonast er til þess að í kjölfarið verði líflegar umræður um málið, aðferðir og möguleika listfræðinnar til að segja sögu myndlistar á Íslandi.
Útdráttur erindis: Hvernig á að segja sögu vídeólistar á Íslandi ?

Það er auðvelt fyrir rannsakanda að lýsa því yfir að hann ætli sér að segja sögu íslenskrar vídeólistar. Það er erfiðara að ákveða hvernig nálgast á viðfangsefnið, ekki síst þegar flestir viðmælendur eru sammála um að á Íslandi hafi aldrei verið til vídeólist. Hvað merkir það ? Í þessu erindi ætla ég að gera tilraun til að svara þeirri spurningu um leið og ég fjalla um aðferðafræði rannsókna minna á íslenskri vídeólist og hvernig hún hefur mótast af aðstæðum. Ég mun segja frá upphafi verkefnisins, ástæðum þess að það var lagt til hliðar og síðan tekið upp aftur. Þá mun ég gera grein fyrir sýningunni “Íslensk vídeólist frá 1975-1990” sem sett var upp í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsinu síðastliðið haust og ræða hvernig forsendur rannsóknarinnar réðu áherslunum við uppsetningu sýningarinnar.

Félagsfundur — Gunnar Harðarson um bók sína um listheimspeki

Félagsfundur í Listfræðafélaginu á efri hæðinni á Sólon þriðjudaginn 10. desember 2013 frá 17–18.30.

Gestur fundarins verður Gunnar Harðarson sem kemur til með að ræða bók sína um listheimspeki sem kemur út á næstunni.
Um leið verður erindi hans eins konar minning um Danto og upprifjun á áhrifum hans og hugmyndum.

Vonandi ná sem flestir að mæta og taka þátt í vinalegu spjalli við aðra félagsmenn í kjölfar erindis Gunnars.