Einskismannsland — fyrirlestur á vegum Listfræðafélags Íslands

Einskismannsland — fyrirlestur á vegum Listfræðafélags Íslands

Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, fjalla um sýninguna Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? í hádegisfyrirlestri á vegum Listfræðafélags Íslands, miðvikudaginn 26. september kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Sýningin Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? er viðmikil myndlistarsýning sem staðið hefur yfir í tveimur safnahúsum Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsinu og á Kjarvalsstöðum, frá því í júní. Á sýningunni, sem lýkur þann 30. september nk., eru fjölmörg verk eftir frumkvöðla íslenskrar myndlistar, auk nýrri verka eftir starfandi listamenn samtímans. Sýningin er áhugaverð út frá listfræðilegu sjónarhorni, því hún segir sögu íslenskrar myndlistar frá upphafi 20. aldar til upphafs 21. aldar með því að beina sjónum að verkum sem endurspegla tengsl Íslendinga við víðerni landsins. Sýningunni er ætlað að varpa fram spurningum um breytilegt verðmætamat gagnvart náttúrunni, en hún veitir einnig færi á að ræða hlutverk myndlistarinnar í samfélaginu og hvernig hún endurspeglar tíðarandann hverju sinni. Á 100 ára afmæli Fullveldis Íslands veitir hún kærkomið tækifæri til að skoða rauðan þráð í sögu íslenskrar myndlistar, sem eru tengsl myndlistarmanna við íslenska náttúru og landslag. Sýningin er hluti af afmælishátíð fullveldisins og hluti af Listahátíð í Reykjavík 2018.

Listfræðafélagi Íslands er sönn ánægja að taka á móti Ólöfu K. Sigurðardóttur, sýningarstjóra sýningarinnar, og Markúsi Þór Andréssyni, sem ætla að segja frá sýningunni og tilurð hennar í hádegisfyrirlestri á vegum félagsins. Eftir umfjöllun Ólafar og Markúsar Þórs verður opnað fyrir umræður.

Haustið 2018 eru hádgisfyrirlestrar Listfræðafélags Íslands helgaðir 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Fyrirlestarnir eru opnir öllum. Aðgangur er ókeypis.

 

Menning í Múlakoti. Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar

Menning í Múlakoti. Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar

Ásta Friðriksdóttir listfræðingur flytur fyrirlesturinn Menning í Múlakoti: Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar, í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 7. mars milli kl. 12 – 13.

Bærinn Múlakot í Fljótshlíð var mikil menningarmiðstöð á fyrri hluta 20. aldar og bærinn tengist íslenskri listasögu en þangað lögðu margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar leið sína og dvöldu um lengri eða skemmri tíma. Hjónin Túbal Magnússon og Guðbjörg Þorleifsdóttir ráku gistiheimili og veitingastað í Múlakoti og síðar tók sonur þeirra, myndlistarmaðurinn Ólafur Túbal við starfseminni. Meðal þeirra listamanna sem dvöldu í Múlakoti má nefna Ásgrím Jónsson, Jón Engilberts og Gunnlaug Scheving.

Ásta Friðriksdóttir útskrifaðist sem listfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2016 en hluta námsins var hún skiptinemi við University of Sussex í Brighton í Englandi. Lokaritgerð hennar fjallar um gistiheimilið Múlakot í Fljótshlíð.
Ásta hefur starfað á Listasafni Íslands við skráningu í gagnagrunn Sarps og við fræðsludeild safnsins frá árinu 2015, auk þess að taka að sér leiðsagnir innlendra og erlendra gesta safnins.

Ljósm. Árni Sæberg

Ávísun um uppdrátta- og málaralistina

Ávísun um uppdrátta- og málaralistina

Gunnar Harðarson, prófessor við Sagfnræði og heimspekideild Háskóla Íslands, ræðir um útgáfu sína á riti Helga Sigurðssonar, Ávísun um uppdrátta- og málaralistina, miðvikudaginn 7. febrúar kl. 12 á vegum Listfræðafélag Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

 Ávísun um uppdrátta- og málaralistina er eina íslenska ritið frá fyrri öldum sem fjallar um myndlist á fræðilegan máta. Ritið var hugsað sem kennslubók í málaralist og teikningu sem höfundur skrifaði meðan hann var við nám í Kaupmannahöfn árið 1846. Megin viðfangsefnið er fjarvíddarteikning en einnig er fjallað um listmálun og gildi og gagnsemi myndlistar. Ritið er merkileg heimild um íslenska myndlistarsögu og kom út hjá Crymogeu á síðasta ári. Það hefur ekki áður verið gefið út í heild sinni.

Gunnar Harðarson lauk doktorsprófi við Université Paris I – Panthéon-Sorbonne árið 1984 og er nú prófessor við Sagnfræði og heimspekideild Háskóla Íslands. Hann hefur gefið út bækur og sinnt rannsóknum og kennslu um árabil m.a. við Listaháskóla Íslands.