ÁTAKALÍNUR – Jón Proppé — Blátt strik: Átökin um abstraktið

ÁTAKALÍNUR – Jón Proppé — Blátt strik: Átökin um abstraktið

Blátt strik: Átökin um abstraktið, fyrirlestur Jóns Proppé, verður fluttur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 1. febrúar frá 12 til 13.  Fyrirlesturinn er sá fyrsti í nýrri í fyrirlestraröð Listfræðafélagins í samvinnu við Safnahúsið vorið 2017. Yfirskrift raðarinnar er Átakalínur í íslenskri myndlist. Markmiðið er að kynna rannsóknir félagsmanna á lykiltímabilum í íslenskri list á liðinni öld þar sem átök á milli ólíkra hugsjóna og stefna voru áberandi í umræðunni.

Fimmti áratugurinn var vettvangur mikilla átaka á myndlistarsviðinu á Íslandi. Þar laust saman ólíkum hugmyndum um listir, menningu og samfélag, og það er langt í frá einfalt að greina þessa þræði í sundur til að átta sig á því hvað gerðist á þessum lykiltíma í íslenskri listasögu. Jón Proppé mun reyna að losa nokkra enda úr flækjunni og byggir á vinnu sinni við skrif í Listasögu Íslands og rannsóknum á skrifum um myndlist á Íslandi sem hann hefur stundað undanfarin ár og áður fjallað um í fyrirlestrum og á prenti.

STEFNUMÓT — Eiríkur Þorláksson — „-30 / +60“ – 7. desember

STEFNUMÓT — Eiríkur Þorláksson — „-30 / +60“ – 7. desember

„-30 / +60“, fyrirlestur Eiríks Þorlákssonar, verður fluttur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 7. desember frá 12 til 13.  Fyrirlesturinn er fjórði fyrirlesturinn og sá síðasti í fyrirlestraröð Listfræðafélagins í samvinnu við Safnahúsið nú í haust. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.

Haustið 1998 fyllti sýningin „-30 / 60+“ alla sali og ganga Kjarvalsstaða, en í henni voru valin saman í einn stað verk listafólks af tveimur ólíkum kynslóðum; annars vegar bar fyrir augu gesta verk ungrar kynslóðar listafólks – undir þrítugu – sem var að koma fram á myndlistarvettvangi af fullum krafti, og hins vegar verk vel þekktra listamanna – yfir sextugt – sem höfðu öðlast viðurkenndan sess í myndlistarlífinu eftir öflugt og markvisst starf um áratuga skeið og voru enn í fullu fjöri.

Með því að leiða saman þetta listafólk – sitt hvoru megin við hefðbundna valdakynslóð hvers tíma – var varpað fram spurningum mögulegar andstæður, tengsl, rof eða hvort þráður listsköpunarinnar reyndist heill og óskiptur milli þessara kynslóða.
Orðspor sýningarinnar „-30 / 60+“ hefur lifað í minningunni, og í fyrirlestrinum mun Eiríkur Þorláksson, annar sýningarstjóranna, rifja hana upp og lýsa henni nánar, sem og þeim viðbrögðum sem hún vakti.

 

 

 

ÁTAKALÍNUR – Jón Proppé — Blátt strik: Átökin um abstraktið

STEFNUMÓT — Jón Proppé — Tíminn í landslaginu

Tíminn í landslaginu, fyrirlestur Jóns Proppé, verður fluttur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 2. nóvember frá 12 til 13.  Í fyrirlestrinum ræðir Jón tilurð og forsendur sýningar sinnar  í Listasafni Árnesinga árið 2013 þar sem verk Arngunnar Ýrar Gylfadóttur voru sett í samhengi verka Ásgríms Jónssonar. Fyrirlesturinn er þriðji fyrirlesturinn í fyrirlestraröð Listfræðafélagins í samvinnu við Safnahúsið nú í haust. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.
_dsc5733Ásgrímur Jónsson (1876–1958) var frumkvöðull í íslenskri landslagslist við upphaf tuttugustu aldar, meistari ljóss og lita sem ferðaðist um sveitir landsins með málarastriga og trönur. Landslagshefðin hvarf að miklu leyti á áttunda áratugnum þegar nýlistin var að ryðja sér til rúms en smátt og smátt hafa sumir yngri listamenn fetað sig aftur á þær slóðir. Einn af þeim er Arngunnur Ýr (1962) sem hefur leitað á marga þá staði sem Ásgrímur málaði áður, en sameinar þá líka stundum við ímyndað landslag eða fjallalandslag frá Kaliforníu þar sem hún býr þegar hún er ekki að ganga á fjöll á Íslandi eða mála á vinnustofu sinni í hrauninu fyrir ofan Hafnarfjörð.

Í fyrirlestri sínum fyrir Listfræðafélagið mun Jón segja frá sýningunni, velta fyrir sér eðli og þróun landslagsmálverksins og fjalla um aðferðarfræði sýninga þar sem verk listamanna af ólíkum kynslóðum eru sýnd saman.


Jón Proppé,  listheimspekingur er sjálfstætt starfandi fræðimaður og sýningarstjóri.

 

 

 

STEFNUMÓT — Dorothee Kirch — Uppbrot

STEFNUMÓT — Dorothee Kirch — Uppbrot

Uppbrot, fyrirlestur Dorothée Kirch, verður fluttur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 5. október frá 12 til 13.  Í fyrirlestrinum ræðir Dorothée tilurð og forsendur sýningar sinnar  í Ásmundarsafni þar sem verk Elínar Hansdóttir eru sett í samhengi verka Ásmundar Sveinssonar. Fyrirlesturinn er annar fyrirlesturinn í fyrirlestraröð Listfræðafélagins í samvinnu við Safnahúsið nú í haust. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.

Hlutskipti listamanna hefur oft verið að brjóta upp gömul og gildandi viðhorf. Ásmundur Sveinsson (1893–1982) talaði um að fá fólk til að „vakna til meðvitundar um að það er ekki skynlausar skepnur.“ Elín Hansdóttir (f. 1980) segir listina eiga að „kippa undan þér fótunum og fá þig til að endurmeta fastmótaðar hugmyndir þínar.“

Elín og Ásmundur vinna með þrívíddina á ólíkan hátt, hann fangar form í efni, hún endurskilgreinir rýmið. Átökin milli nýrra verka Elínar og verka Ásmundar opna áhorfendum nýja sýn. Á milli kynslóðanna eru fjölmargir ósættanlegir þræðir sem skapa áhugaverða spennu en þar er einnig að finna kraftmikinn samhljóm.

Elín leggur áherslu á upplifun áhorfandans af verkum sínum. Þau eru þannig opin og bjóðandi, tilbúnar aðstæður þar sem skynjun einstaklingsins er ögrað. Það er vel líklegt að verk hennar sýni okkur ekki neitt, séu aðeins látbragð sem kveikir viðbrögð.

Ásmundur var á meðal frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar og sótti innblástur fyrst og fremst í íslenska náttúru og bókmenntir, sem og til þjóðarinnar í landinu. Efnismikil, kröftug og stundum ógnandi verk hans eru lík þeim kynjamyndum sem lesa má úr íslenskri náttúru.


Dorothée Kirch hefur starfað við myndlist á Íslandi frá árinu 2001 þar á meðal hjá Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Listahátíð í Reykjavík og Listasafni Íslands. Hún gegndi stöðu framkvæmdastjóra íslenska skálans á Feneyjartvíæringnum árin 2011 og 2013 og var sýningarstjóri íslenska skálans á Feneyjatvíæringi árið 2009. Árin 2010 og 2014 var Dorothée framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar. Dorothée útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005.

 

 

 

STEFNUMÓT — Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir — Spegill tímans

STEFNUMÓT — Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir — Spegill tímans

Spegill tímans, fyrirlestur Aðalheiðar Valgeirsdóttur og Aldísar Arnardóttur sem fram fer í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 7. september frá 12 til 13. Fyrirlesturinn er fyrsti fyrirlesturinn í nýrri fyrirlestraröð Listfræðafélagins í Safnahúsinu. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.

Eitt af viðfangsefnum listfræðinnar er að skoða myndlistina útfrá mismunandi sjónarhornum og setja í samhengi við orðræðu og tíðaranda hvers tíma. Í fyrirlestrinum Spegill tímans, fjalla listfræðingarnir og sýningarstjórarnir Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir um það samtal sem verður til þegar verkum listamanna tveggja kynslóða er teflt saman, líkt og gert er á sýningunni Tímalög sem nú stendur yfir í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Þar eru sýnd verk eftir listamennina Karl Kvaran (1924-1989) og Erlu Þórarinsdóttur (1955). Þær Aðalheiður og Aldís munu segja frá tilurð sýningarinnar, vinnuferlinu og þeirri aðferðafræði sem liggur að baki sýningarverkefninu.

Aðalheiður Valgeirsdóttir er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk BA prófi í listfræði með menningarfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 2011 og MA prófi í sömu grein árið 2014.

Aldís Arnardóttir er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA prófi í listfræði, með menningarfræði sem aukagrein árið 2012.