Hádegisfyrirlestur Listfræðafélagsins: Lífsblómið – átök um fullveldið

Hádegisfyrirlestur Listfræðafélagsins: Lífsblómið – átök um fullveldið

Lífsblómið – átök um fullveldið

Fyrirlestur á vegum Listfræðafélags Íslands

Sigrún Alba Sigurðardóttir sýningarstjóri heldur fyrirlestur um sýninguna Lífsblómið. Fullveldi Íslands í 100 ár sem var opnuð í Listasafni Íslands síðastliðið sumar.

Sýningin fjallar eins og nafnið gefur til kynna um fullveldi Íslands. Það er í krafti fullveldisins sem við Íslendingar erum þjóð meðal þjóða, að við getum látið að okkur kveða, hvort sem er í mannréttindamálum, í umhverfismálum eða öðrum málum sem tekist er á um á alþjóðavettvangi. Það er í krafti fullveldisins sem við höfum eitthvað að gefa. Á síðustu 100 árum hefur víða verið tekist á um fullveldið og spurningar er varða stöðu Íslands í heiminum. Austurvöllur, Alþingi, fjölmiðlar og listasöfn hafa meðal annars verið vettvangur fyrir þessa umræðu. Í fyrirlestri sínum mun Sigrún Alba Sigurðardóttir, sýningarstjóri Lífsblómsins, beina sjónum sínum að hugmyndaheimi sýningarinnar og ekki síst þætti myndlistarinnar á sýningunni en fjöldi listamanna á verk á sýningunni og má þar nefna Ólöfu Nordal, Ragnar Kjartansson, Ólaf Elíasson, Lindu Vilhjálmsdóttur, Birgi Andrésson, Kristínu Jónsdóttur, Jóhannes Kjarval, Rúrí, Pétur Thomsen, Unnar Örn, Úlf Eldjárn, Steingrím Eyfjörð, Libiu Castro og Ólaf Ólafsson. Sýningin er samstarfsverkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðskjalasafns Íslands og Listasafns Íslands.

 

Sigrún Alba Sigurðardóttir er lektor og starfandi deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands. Auk kennslu og stjórnunarstarfa við Listaháskólann hefur Sigrún gefið út bækur og fræðigreinar á sviði ljósmyndafræði, arkitektúrs og menningarfræða og starfað með myndlistarmönnum við textagerð af ýmsu tagi. Helstu verkefni hennar sem sýningarhöfundar og sýningarstjóra eru Lífsblómið (Listasafn Íslands 2018), Leiftur á stund hættunar (Listasafn Árnesinga 2009) Þrælkun, þroski, þrá (Þjóðminjasafn Íslands 2009) og Heima-Heiman (Ljósmyndasafn Reykjavíkur 2008).

Einskismannsland — fyrirlestur á vegum Listfræðafélags Íslands

Einskismannsland — fyrirlestur á vegum Listfræðafélags Íslands

Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, fjalla um sýninguna Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? í hádegisfyrirlestri á vegum Listfræðafélags Íslands, miðvikudaginn 26. september kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Sýningin Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? er viðmikil myndlistarsýning sem staðið hefur yfir í tveimur safnahúsum Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsinu og á Kjarvalsstöðum, frá því í júní. Á sýningunni, sem lýkur þann 30. september nk., eru fjölmörg verk eftir frumkvöðla íslenskrar myndlistar, auk nýrri verka eftir starfandi listamenn samtímans. Sýningin er áhugaverð út frá listfræðilegu sjónarhorni, því hún segir sögu íslenskrar myndlistar frá upphafi 20. aldar til upphafs 21. aldar með því að beina sjónum að verkum sem endurspegla tengsl Íslendinga við víðerni landsins. Sýningunni er ætlað að varpa fram spurningum um breytilegt verðmætamat gagnvart náttúrunni, en hún veitir einnig færi á að ræða hlutverk myndlistarinnar í samfélaginu og hvernig hún endurspeglar tíðarandann hverju sinni. Á 100 ára afmæli Fullveldis Íslands veitir hún kærkomið tækifæri til að skoða rauðan þráð í sögu íslenskrar myndlistar, sem eru tengsl myndlistarmanna við íslenska náttúru og landslag. Sýningin er hluti af afmælishátíð fullveldisins og hluti af Listahátíð í Reykjavík 2018.

Listfræðafélagi Íslands er sönn ánægja að taka á móti Ólöfu K. Sigurðardóttur, sýningarstjóra sýningarinnar, og Markúsi Þór Andréssyni, sem ætla að segja frá sýningunni og tilurð hennar í hádegisfyrirlestri á vegum félagsins. Eftir umfjöllun Ólafar og Markúsar Þórs verður opnað fyrir umræður.

Haustið 2018 eru hádgisfyrirlestrar Listfræðafélags Íslands helgaðir 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Fyrirlestarnir eru opnir öllum. Aðgangur er ókeypis.

 

Bróderað landslag

Bróderað landslag

Harpa Björnsdóttir flytur fyrirlesturinn „Bróderað landslag“ á vegum Listfræðafélags Íslands miðvikudaginn 2. maí kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Í erindi sínu mun Harpa fjalla um sérkennileg myndverk frá árunum 1914-1956, þar sem himinn og vatn er málað en landslag saumað út með listsaumi. Verkin kallast á við þá landslagsdýrkun sem kom fram hjá íslenskum listmálurum á sama tíma og tengist sjálfstæðisbaráttu og styrkingu á sjálfsmynd þjóðar sem rís á þessum árum til fullveldis og síðar til fulls sjálfstæðis. Sýning á nokkrum slíkum verkum opnar í Safnasafninu um miðjan maí.

Harpa Björnsdóttir stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Háskóla Íslands, Leiðsögumannaskóla Íslands og var gestanemandi við listaskóla í Kaupmannahöfn og Dublin. Hún hefur starfað sem myndlistarmaður frá árinu 1983, var verkefnastjóri Menningarnætur í Reykjavík 1997 og 1998 og framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík 1999-2000. Harpa hefur einnig verið sýningarstjóri fjölmargra sýninga.

Harpa hefur unnið að rannsókn og útgáfu bókar um Karl Einarsson Dunganon í samstarfi við Helgu Hjörvar, bókin mun koma út samhliða yfirlitssýningu á verkum hans í Listasafni Íslands í haust. Undanfarin ár hefur Harpa unnið að rannsókn á lífi og myndlist Sölva Helgasonar (1820-1895) og stefnir að útgáfu bókar á 200 ára ártíð hans árið 2020.

Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans

Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans

Gunnar J. Árnason listheimspekingur flytur fyrirlesturinn „Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans“ á vegum Listfræðafélags Íslands miðvikudaginn 4. apríl kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Gunnar er höfundur bókarinnar Ásýnd heimsins, um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans. Í henni er fjallað hvernig listir og fagurfræði hafa haft áhrif á margar af þeim heimspekilegu hugmyndum sem gegndu stóru hlutverki í að skapa hugmyndaheim nútímans frá átjándu öld til loka tuttugustu aldar. Í erindi sínu mun Gunnar ræða um listfræði, listasögu og listgagnrýni, í ljósi þessarar sögu og velta fyrir sér þeirri spurningu hver staða listfræði er í hugmyndaheimi nútímans og hvaða erindi hún á við samtímann. Hvað ætlar hún sér með listina, hvað ætlar hún sér með okkur?

Gunnar J. Árnason hefur skrifað um myndlist um árabil og verið stundakennari við Listaháskóla Íslands. Hann lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og School of Visual Arts í New York áður en hann sneri sér að heimspeki við Háskóla Íslands og listheimspeki og fagurfræði við Cambridge háskóla á Englandi.

Ásýnd heimsins, um list og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans, kom út á vegum Listaháskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar árið 2017.

Menning í Múlakoti. Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar

Menning í Múlakoti. Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar

Ásta Friðriksdóttir listfræðingur flytur fyrirlesturinn Menning í Múlakoti: Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar, í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 7. mars milli kl. 12 – 13.

Bærinn Múlakot í Fljótshlíð var mikil menningarmiðstöð á fyrri hluta 20. aldar og bærinn tengist íslenskri listasögu en þangað lögðu margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar leið sína og dvöldu um lengri eða skemmri tíma. Hjónin Túbal Magnússon og Guðbjörg Þorleifsdóttir ráku gistiheimili og veitingastað í Múlakoti og síðar tók sonur þeirra, myndlistarmaðurinn Ólafur Túbal við starfseminni. Meðal þeirra listamanna sem dvöldu í Múlakoti má nefna Ásgrím Jónsson, Jón Engilberts og Gunnlaug Scheving.

Ásta Friðriksdóttir útskrifaðist sem listfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2016 en hluta námsins var hún skiptinemi við University of Sussex í Brighton í Englandi. Lokaritgerð hennar fjallar um gistiheimilið Múlakot í Fljótshlíð.
Ásta hefur starfað á Listasafni Íslands við skráningu í gagnagrunn Sarps og við fræðsludeild safnsins frá árinu 2015, auk þess að taka að sér leiðsagnir innlendra og erlendra gesta safnins.

Ljósm. Árni Sæberg