„Miðill – Efni – Merking: Leiðangur að list Önnu Líndal “ er heiti fyrirlestrar Ólafar K. Sigurðardóttur safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, sem fer fram í Safnahúsinu við Hverfisgötu, miðvikudaginn 6. desember kl. 12. Ólöf er sýningarstjóri yfirlitssýningarinnar Leiðangur á verkum Önnu Líndal, sem nú stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum.

Anna Líndal á að baki tæplega þrjátíu ára myndlistarferil og er sýningunni á Kjarvalsstöðum ætlað að greina feril hennar, innra samhengi verkanna og vísanir til samfélagslegra viðfangsefna. Ólöf mun fjalla um aðdraganda og markmið sýningarinnar og rekja hvernig Anna hefur notað ólíka miðla til að til að nálgast viðfangsefni sín þar sem sjónræn framsetning, viðfangsefni og merking haldast í hendur. Ólöf er safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og var áður forstöðumaður Hafnarborgar. Hún stýrði um árabil fræðsludeild Listasafns Reykjavíkur þar sem hún hafði m.a. umsjón með málþingum og fyrirlestrum. Ólöf hefur stýrt fjölda sýninga, ritað greinar og haft umsjón með útgáfum um íslenska myndlist.

 

Yfirskrift fyrirlestrarraðarinnar sem Listfræðafélagið stendur fyrir í samvinnu við Safnahúsið nú í haust er Miðill – Efni – Merking. Velt verður upp þverfaglegum spurningum um listhugtakið, miðlun myndlistar, og hvaða merkingu hún hefur á tímum þegar málverk getur verð meira en litur á tvívíðum fleti og hópar sem hafa verið á jöðrum listasögunnar sækja að miðjunni.