Hádegisfyrirlestur Listfræðafélagsins: Lífsblómið – átök um fullveldið

Hádegisfyrirlestur Listfræðafélagsins: Lífsblómið – átök um fullveldið

Lífsblómið – átök um fullveldið

Fyrirlestur á vegum Listfræðafélags Íslands

Sigrún Alba Sigurðardóttir sýningarstjóri heldur fyrirlestur um sýninguna Lífsblómið. Fullveldi Íslands í 100 ár sem var opnuð í Listasafni Íslands síðastliðið sumar.

Sýningin fjallar eins og nafnið gefur til kynna um fullveldi Íslands. Það er í krafti fullveldisins sem við Íslendingar erum þjóð meðal þjóða, að við getum látið að okkur kveða, hvort sem er í mannréttindamálum, í umhverfismálum eða öðrum málum sem tekist er á um á alþjóðavettvangi. Það er í krafti fullveldisins sem við höfum eitthvað að gefa. Á síðustu 100 árum hefur víða verið tekist á um fullveldið og spurningar er varða stöðu Íslands í heiminum. Austurvöllur, Alþingi, fjölmiðlar og listasöfn hafa meðal annars verið vettvangur fyrir þessa umræðu. Í fyrirlestri sínum mun Sigrún Alba Sigurðardóttir, sýningarstjóri Lífsblómsins, beina sjónum sínum að hugmyndaheimi sýningarinnar og ekki síst þætti myndlistarinnar á sýningunni en fjöldi listamanna á verk á sýningunni og má þar nefna Ólöfu Nordal, Ragnar Kjartansson, Ólaf Elíasson, Lindu Vilhjálmsdóttur, Birgi Andrésson, Kristínu Jónsdóttur, Jóhannes Kjarval, Rúrí, Pétur Thomsen, Unnar Örn, Úlf Eldjárn, Steingrím Eyfjörð, Libiu Castro og Ólaf Ólafsson. Sýningin er samstarfsverkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðskjalasafns Íslands og Listasafns Íslands.

 

Sigrún Alba Sigurðardóttir er lektor og starfandi deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands. Auk kennslu og stjórnunarstarfa við Listaháskólann hefur Sigrún gefið út bækur og fræðigreinar á sviði ljósmyndafræði, arkitektúrs og menningarfræða og starfað með myndlistarmönnum við textagerð af ýmsu tagi. Helstu verkefni hennar sem sýningarhöfundar og sýningarstjóra eru Lífsblómið (Listasafn Íslands 2018), Leiftur á stund hættunar (Listasafn Árnesinga 2009) Þrælkun, þroski, þrá (Þjóðminjasafn Íslands 2009) og Heima-Heiman (Ljósmyndasafn Reykjavíkur 2008).

Einskismannsland — fyrirlestur á vegum Listfræðafélags Íslands

Einskismannsland — fyrirlestur á vegum Listfræðafélags Íslands

Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, fjalla um sýninguna Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? í hádegisfyrirlestri á vegum Listfræðafélags Íslands, miðvikudaginn 26. september kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Sýningin Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? er viðmikil myndlistarsýning sem staðið hefur yfir í tveimur safnahúsum Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsinu og á Kjarvalsstöðum, frá því í júní. Á sýningunni, sem lýkur þann 30. september nk., eru fjölmörg verk eftir frumkvöðla íslenskrar myndlistar, auk nýrri verka eftir starfandi listamenn samtímans. Sýningin er áhugaverð út frá listfræðilegu sjónarhorni, því hún segir sögu íslenskrar myndlistar frá upphafi 20. aldar til upphafs 21. aldar með því að beina sjónum að verkum sem endurspegla tengsl Íslendinga við víðerni landsins. Sýningunni er ætlað að varpa fram spurningum um breytilegt verðmætamat gagnvart náttúrunni, en hún veitir einnig færi á að ræða hlutverk myndlistarinnar í samfélaginu og hvernig hún endurspeglar tíðarandann hverju sinni. Á 100 ára afmæli Fullveldis Íslands veitir hún kærkomið tækifæri til að skoða rauðan þráð í sögu íslenskrar myndlistar, sem eru tengsl myndlistarmanna við íslenska náttúru og landslag. Sýningin er hluti af afmælishátíð fullveldisins og hluti af Listahátíð í Reykjavík 2018.

Listfræðafélagi Íslands er sönn ánægja að taka á móti Ólöfu K. Sigurðardóttur, sýningarstjóra sýningarinnar, og Markúsi Þór Andréssyni, sem ætla að segja frá sýningunni og tilurð hennar í hádegisfyrirlestri á vegum félagsins. Eftir umfjöllun Ólafar og Markúsar Þórs verður opnað fyrir umræður.

Haustið 2018 eru hádgisfyrirlestrar Listfræðafélags Íslands helgaðir 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Fyrirlestarnir eru opnir öllum. Aðgangur er ókeypis.

 

Móttaka í Listasafni Reykjavíkur

Móttaka í Listasafni Reykjavíkur

Sæl öll,
Næstkomandi mánudag, 28. maí býður Listasafn Reykjavíkur félagsmönnum í Listfræðafélagi Íslands til móttöku í Hafnarhúsi vegna fundar NORDIK í Reykjavík.

Boðið stendur frá kl. 18-19.

Mætið tímanlega

Öll hjartanlega velkomin

Vinsamlega staðfestið komu ykkar með því að senda tölvupóst til listfræðafélagsins, stjorn@listfraedi.is

Bestu kveðjur
Ynda Gestsson formanneskja

Aðalfundur Listfræðafélagsins 8. maí n.k

Aðalfundur Listfræðafélagsins 8. maí n.k

Aðalfundur Listfræðafélags Íslands verður haldinn þriðjudaginn 8. maí 2018 kl. 17 í húsnæði SÍM, Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík.

Dagskrá aðalfundar er svohljóðandi (í samræmi við lög félagsins):

  1. Kosning fundarstjóra.
  2.  Ársskýrsla stjórnar kynnt af formanni og lögð fram til samþykktar.
  3.  Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
  4. (. Lagabreytingar.)
  5.  Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga.
  6.  Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
  7.  Önnur mál.

Um lið 4.
Engar tillögur að lagabreytingum liggja fyrir þannig að sá liður fellur niður.

Stjórn félagsins er skipuð formanni, gjaldkera, ritara og tveimur varamönnum. Við viljum hvetja þá félaga sem vilja starfa undir merkjum félagsins og láta gott af sér leiða að bjóða sig fram til stjórnarsetu. Gott væri að vita um slík framboð fyrir fundinn og hvetjum við áhugasama til að hafa samband við stjórn (stjorn@listfraedi.is).

Þeir sem vilja vinna að einhverjum sérstökum málefnum innan félagsins eru einnig hvattir til að hafa samband við stjórnina fyrir fundinn.

Við hvetjum alla félaga til að taka virkan þátt í mótun starfs félagsins og mæta á aðalfund. Að loknum fundi verður boðið upp á léttar veitingar.

Ynda Gestsson, formanneskja
Aldís Arnardóttir, ritari
Baldvina Sigrún Sverrisdóttir, gjaldkeri
Aðalheiður Valgeirsdóttir, varamaður
Jóhannes Dagsson, varamaður