Bróderað landslag

Bróderað landslag

Harpa Björnsdóttir flytur fyrirlesturinn „Bróderað landslag“ á vegum Listfræðafélags Íslands miðvikudaginn 2. maí kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Í erindi sínu mun Harpa fjalla um sérkennileg myndverk frá árunum 1914-1956, þar sem himinn og vatn er málað en landslag saumað út með listsaumi. Verkin kallast á við þá landslagsdýrkun sem kom fram hjá íslenskum listmálurum á sama tíma og tengist sjálfstæðisbaráttu og styrkingu á sjálfsmynd þjóðar sem rís á þessum árum til fullveldis og síðar til fulls sjálfstæðis. Sýning á nokkrum slíkum verkum opnar í Safnasafninu um miðjan maí.

Harpa Björnsdóttir stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Háskóla Íslands, Leiðsögumannaskóla Íslands og var gestanemandi við listaskóla í Kaupmannahöfn og Dublin. Hún hefur starfað sem myndlistarmaður frá árinu 1983, var verkefnastjóri Menningarnætur í Reykjavík 1997 og 1998 og framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík 1999-2000. Harpa hefur einnig verið sýningarstjóri fjölmargra sýninga.

Harpa hefur unnið að rannsókn og útgáfu bókar um Karl Einarsson Dunganon í samstarfi við Helgu Hjörvar, bókin mun koma út samhliða yfirlitssýningu á verkum hans í Listasafni Íslands í haust. Undanfarin ár hefur Harpa unnið að rannsókn á lífi og myndlist Sölva Helgasonar (1820-1895) og stefnir að útgáfu bókar á 200 ára ártíð hans árið 2020.

Aðalfundur Listfræðafélagsins 8. maí n.k

Aðalfundur Listfræðafélagsins 8. maí n.k

Stjórn Listfræðafélags Íslands boðar til aðalfundar þriðjudaginn 8. maí 2018 kl. 17.00 í húsnæði SÍM, Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík.

Dagskrá aðalfundar verður auglýst nánar þegar nær dregur.

Félagsmenn eru hvattir til að gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins þar sem fyrir liggur að hluti núvernandi stjórnar gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Þeir sem vilja vinna að einhverjum sérstökum málefnum innan félagsins eru einnig hvattir til að hafa samband við stjórnina fyrir fundinn.

Að loknum aðalfundi verður boðið er upp á léttar veitingar.

Við hvetjum alla félaga til að taka virkan þátt í mótun starfs félagsins og mæta á aðalfund.

Magnús Gestsson, formanneskja

Aldís Arnardóttir, ritari

Baldvina S. Sverrisdóttir, gjaldkeri

Aðalheiður Valgeirsdóttir, varamaður

Jóhannes Dagsson, varamaður

Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans

Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans

Gunnar J. Árnason listheimspekingur flytur fyrirlesturinn „Um afdrif listfræðinnar í hugmyndaheimi nútímans“ á vegum Listfræðafélags Íslands miðvikudaginn 4. apríl kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Gunnar er höfundur bókarinnar Ásýnd heimsins, um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans. Í henni er fjallað hvernig listir og fagurfræði hafa haft áhrif á margar af þeim heimspekilegu hugmyndum sem gegndu stóru hlutverki í að skapa hugmyndaheim nútímans frá átjándu öld til loka tuttugustu aldar. Í erindi sínu mun Gunnar ræða um listfræði, listasögu og listgagnrýni, í ljósi þessarar sögu og velta fyrir sér þeirri spurningu hver staða listfræði er í hugmyndaheimi nútímans og hvaða erindi hún á við samtímann. Hvað ætlar hún sér með listina, hvað ætlar hún sér með okkur?

Gunnar J. Árnason hefur skrifað um myndlist um árabil og verið stundakennari við Listaháskóla Íslands. Hann lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og School of Visual Arts í New York áður en hann sneri sér að heimspeki við Háskóla Íslands og listheimspeki og fagurfræði við Cambridge háskóla á Englandi.

Ásýnd heimsins, um list og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans, kom út á vegum Listaháskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar árið 2017.

Menning í Múlakoti. Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar

Menning í Múlakoti. Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar

Ásta Friðriksdóttir listfræðingur flytur fyrirlesturinn Menning í Múlakoti: Gróðrastöð lista á fyrri hluta 20. aldar, í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 7. mars milli kl. 12 – 13.

Bærinn Múlakot í Fljótshlíð var mikil menningarmiðstöð á fyrri hluta 20. aldar og bærinn tengist íslenskri listasögu en þangað lögðu margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar leið sína og dvöldu um lengri eða skemmri tíma. Hjónin Túbal Magnússon og Guðbjörg Þorleifsdóttir ráku gistiheimili og veitingastað í Múlakoti og síðar tók sonur þeirra, myndlistarmaðurinn Ólafur Túbal við starfseminni. Meðal þeirra listamanna sem dvöldu í Múlakoti má nefna Ásgrím Jónsson, Jón Engilberts og Gunnlaug Scheving.

Ásta Friðriksdóttir útskrifaðist sem listfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2016 en hluta námsins var hún skiptinemi við University of Sussex í Brighton í Englandi. Lokaritgerð hennar fjallar um gistiheimilið Múlakot í Fljótshlíð.
Ásta hefur starfað á Listasafni Íslands við skráningu í gagnagrunn Sarps og við fræðsludeild safnsins frá árinu 2015, auk þess að taka að sér leiðsagnir innlendra og erlendra gesta safnins.

Ljósm. Árni Sæberg

Félagsfundur þriðjudaginn 20. febrúar kl. 17

Félagsfundur þriðjudaginn 20. febrúar kl. 17

Ágætu félagsmenn Listfræðafélagsins,

Næsti félagsfundur Listfræðafélagsins verður haldinn í SÍM húsinu, Hafnarstræti 16, þriðjudaginn 20. febrúar, klukkan 17 – 19.

Gestur fundarins er Harpa Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Íslands.

Í ár eru Íslensku myndlistarverðlaunin veitt í fyrsta sinn, þau eru veitt íslenskum myndlistarmanni sem þykir hafa skarað framúr á síðastliðnu ári. Dr. Magnús Gestsson, fulltrúi Listfræðafélagsins í dómnefnd, mun segja stuttlega frá fyrirkomulagi verðlaunanna.

Við vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta á fundinn á þriðjudag og spjalla um málefni líðandi stundar yfir léttum veitingum.

 

Með góðum kveðjum,

Stjórnin